Handbolti

Landin segir Viktor Gísla vera frábæran markvörð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik gegn Suður-Kóreu á mánudaginn.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik gegn Suður-Kóreu á mánudaginn. vísir/vilhelm

Niklas Landin, fyrirliða og markverði danska handboltalandsliðsins, finnst mikið til Viktors Gísla Hallgrímssonar koma og segir hann frábæran markvörð.

Í viðtali við Fréttablaðið sagðist Viktor alltaf undirbúa sig fyrir leiki á sama hátt; með því að hlusta á sama lagalistann og horfa á sömu fjögur YouTube-myndböndin af Landin. Er Landin var sagt frá þessu var hann upp með sér.

„Ég er ótrúlega stoltur að ég geti haft áhrif á yngri markverði og að þeir noti mig til að undirbúa sig. Það fyllir mig stolti en þýðir einnig að ég er að verða svolítið gamall,“ sagði hinn 34 ára Landin við B.T.

„Þegar ég var að byrja var YouTube ekki stórt en ég horfði til Kaspers Hvidt, Thomas Svensson, Arpads Sterbik og Thierrys Omeyer sem voru stærstu markverðirnir þegar ég var ungur.“

Landin hefur mikið álit á Viktori og segir hann mikinn hæfileikamann og eigi framtíðina fyrir sér.

„Hann er frábær markvörður. Hann hefur allan pakkann. Hann er stór, hreyfanlegur og fyllir vel út í markið. Hann er líka maður framtíðarinnar hjá markvörðunum,“ sagði Landin.

Danir unnu alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni á HM 2023 á meðan Íslendingar unnu tvo leiki og töpuðu einum. Liðin gætu mæst í átta liða úrslitum mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×