Fótbolti

Megan Rapione styður Söru og skammar Lyon

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Megan Rapione er ein þekktasta íþróttakona heims.
Megan Rapione er ein þekktasta íþróttakona heims. getty/Ira L. Black

Bandaríska ofurstjarnan Megan Rapinoe hefur sent Lyon tóninn fyrir það hvernig félagið kom fram við Söru Björk Gunnarsdóttur.

Sara birti í gær grein á The Players' Tribune sem vakti heimsathygli. Þar lýsti hún framkomu Lyon við sig meðan hún var barnshafandi og eftir að hún sneri aftur til félagsins eftir að hafa eignast son sinn, Ragnar Frank.

Lyon borgaði Söru meðal annars ekki laun, enginn kannaði hvernig hún hefði það á meðgöngunni, henni var hótað og fékk ekki að taka Ragnar Frank með sér í útileiki.

Lyon reyndi að bera hönd fyrir höfuð sér og sagði að félagið hefði gert allt sem í valdi þess stóð til að styðja hana og það hefði berið bundið af landslögum varðandi launagreiðslur.

Margar þekktar fótboltakonur hafa tjáð sig um grein Söru og stutt við bakið á henni. Meðal þeirra er Rapinoe sem er ein frægasta íþróttakona heims.

„Þetta er smánarlegt hjá Lyon. Menningin hjá Lyon í Frakklandi á langt í land. Þið elskið að tala um hversu vel þið styðjið konur en þetta dæmi gengur ekki upp. Ég hvet ykkur til að vera félagið sem styður alltaf við bakið á honum en ekki félagið sem gerði það eitt sinn,“ skrifaði Rapinoe á Twitter.

Rapinoe lék með Lyon á árunum 2013-14. Hún varð tvöfaldur meistari með liðinu 2013. Rapione leikur í dag með OL Reign í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×