Enski boltinn

Man. City tekjuhæsta félag heims en Liverpool á mikilli uppleið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John Stones og Pep Guardiola geta verið mjög ánægðir með reksturinn á Manchester City. Liðið raðar inn titlum og tekjuöflunin meiri en hjá öllum öðrum félögum.
 John Stones og Pep Guardiola geta verið mjög ánægðir með reksturinn á Manchester City. Liðið raðar inn titlum og tekjuöflunin meiri en hjá öllum öðrum félögum. Getty/Michael Regan

Annað árið í röð var Manchester City það knattspyrnufélag sem bjó til mestar heildartekjur af félögum heimsins en þetta kemur fram í árlegri úttekt Deloitte.

Manchester City bjó til mestar tekjur á 2021-22 tímabilinu eða 731 milljón evra sem gerir rúmlega 113,3 milljarða króna.

Í öðru sæti var Real Madrid með 714 milljónir evra og Liverpool hoppaði alla leið upp í þriðja sætið með heildartekjur upp á 702 milljónir evra eða 108,8 milljarða króna.

Liverpool hafði verið í sjöunda sæti árið á undan en hefur aldrei verið svona ofarlega á lista Deloitte áður. Þetta er líka í fyrsta sinn sem Liverpool kemst upp fyrir Manchester United á tekjulistanum.

Ensku félögin Chelsea, Tottenham Hotspur, Arsenal, West Ham United, Leicester City, Leeds United, Everton og Newcastle United eru líka öll á topplistanum en England á ellefu af tuttugu tekjuhæstu félögunum. Þetta er í fyrsta sinn sem ensku félögin eru í meirihluta á topp tutugu listanum.

Deloitte tók líka saman tekjur kvennaliðanna í fyrsta sinn. Þar er Barcelona efst með heildartekjur upp á 7,7 milljónir evra eða 1,1 milljarð króna en spænska félagið fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir að hafa unnið hana tímabilið á undan.

Næstu kvennalið þegar kemur að heildartekjum eru Manchester United (6 milljónir evra), Manchester City (5,1), PSG (3,6), Arsenal (2,2) og Tottenham (2,1).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×