Björgvin Páll er aðeins annar íslenski markvörðurinn sem nær að spila svo marga landsleiki og jafnframt er hann nú í hópi tíu leikjahæstu landsliðsmanna sögunnar.
Björgvin Páll spilaði sinn fyrsta A-landsleik þann 1. nóvember 2003 gegn Pólverjum þar sem leikið var í Ólafsvík.
Björgvin er nú kominn á sitt sextánda stórmót og sjöunda heimsmeistaramót með landsliðinu en hann hefur ekki misst af stórmóti síðan hann var fyrst valinn fyrir Ólympíuleikana í Peking 2008. Björgvin hefur unnið tvenn verðlaun með íslenska landsliðinu, silfur á ÓL 2009 og brons á EM 2010.
Svo skemmtilega vill til að annar frábær markvörður var einnig að ná sömu tímamótum með sínu landsliði.
Daginn áður en Björgvin komst í íslensks 250. landsleikjahópinn þá komst danski markvörðurinn Niklas Landin Jacobsen í danska 250. landsleikjahópinn.
Landin er þremur árum yngri en Björgvin Páll og lék sinn fyrsta landsleik árið 2008. Landin hefur lengi verið í hópi allra bestu markvarða heims en hann hefur unnið níu verðlaun með danska landsliðinu á stórmótum þar af fjögur gull á ÓL (2016), HM (2019 og 2021) og EM (2012).
Á meðan Björgvin Páll er í tíunda sæti yfir leikjahæstu Íslendinga þá er Landin komin alla leið upp í þriðja sætið á danska listanum. Það eru aðeins Lars Christiansen (338 landsleikir) og Hans Lindberg (284 leikir) sem hafa spilað fleiri landsleiki en hann.