Málsaðilum var kynnt ákvörðun Hæstaréttar í dag.
Borgarbyggð vildi meina að úrslit málsins hefði verulegt almennt gildi um túlkun samningsbundinna ákvæða um biðlaun starfsmanna sveitarfélaga. Þá taldi sveitarstjórn að málið varðaði mikilvæga hagsmuna sína og að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til, einkum um að uppsagnarfrestur sveitarstjórans fyrrverandi hafi ekki talist til biðlaunatíma samkvæmt ráðningasamningi. Ranglega hafi verið vísað í eldri dóm Hæstaréttar varðandi túlkun bótaréttar, en ekki biðlaunaréttar.
Hæstiréttur var ekki sammála þessu og taldi að að virtum gögnum yrði hvorki talið að úrslit málsins hefði verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Ekki verði heldur séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur og var beiðninni því hafnað.
Starfsheiður Gunnlaugs rýrður
Gunnlaugur stefndi sveitarfélaginu í apríl árið 2020 og krafðist sextíu milljóna króna í bætur. Gunnlaugur var sveitarstjóri frá 2016 til 2019 þegar honum var sagt upp.
Gunnlaugur vildi meina að starfsheiður hans hafi verið rýrður, uppsögnin verið mikið andlegt tjón og valdið honum mikilli vanlíðan. Greint var frá því að Gunnlaugi hafi verið gert að yfirgefa skrifstofu sína um leið og honum var sagt upp. Þá hafi hann samdægurs þurft að skila síma, tölvu og bíl sem hann hafði til umráða.
Afhent uppsagnarbréf á fundi sveitarstjórnar
Gunnlaugur gerði sömuleiðis athugasemd við að honum hafi verið ekki sagt upp með formlegum hætti líkt og kveður um í lögum. Í staðinn fyrir að uppsögnin hafi verið borin upp á fundi sveitarstjórnar hafi forseti sveitarstjórnar afhent honum uppsagnarbréf.
Héraðsdómur Vesturlands sýknaði Borgarbyggð í málinu, en Landsréttur dæmdi svo sveitarfélagið til að greiða Gunnlaugi 3,7 milljónir króna.