Handbolti

„Án gríns, þetta er svo leiðinlegt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti frábæran fyrri hálfleik fyrir íslenska liðið.
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti frábæran fyrri hálfleik fyrir íslenska liðið. Vísir/Vilhelm

„Ég er bara gríðarlega sár. Sár og svekktur og mér finnst við alltaf vera inni í leiknum,“ sagði leikstjórnandinn Gísli Þorgeir Kristjánsson eftir fimm marka tap Íslands gegn Svíþjóð á HM í kvöld.

„Það er aldrei eitthvað móment þar sem er eitthvað panikk. Við erum að skapa okkur færi í hverri einustu sókn og munurinn er bara að vantaði eitthvað „killer instinct“. Mér fannst bara virkilega vanta að þegar við gátum komist yfir og höfðum þetta í höndunum þá gátum við ekki klárað þessi dauðafæri. Af því að á endanum þá lítur þetta út fyrir að hann sé að taka öll skotin sem eru bara einn á móti markmanni.“

„Þetta er ekkert af hávörninni eða skot með blokk. Þetta er bara einn á móti markmanni þegar við getum komist inn í leikinn. Ég veit það ekki, ég er bara orðlaus. Án gríns, þetta er svo leiðinlegt.“

Gísli Þorgeir sýndi frábæra frammistöðu í fyrri hálfleik þar sem han tætti sænsku vörnina í sig trekk í trekk. Það dró aðeins af honum í síðari hálfleik, en heilt yfir skilaði leikstjórnandinn fínu dagsverki.

„Það var alveg klárt að við vorum á leiðinni í stríð. Það var ekki það að menn hafi ekki verið að berjast eða gefa sig alla fram í þetta. Mér fannst við bara eiga meira inni. Það er voða auðvelt að tala um að það vanti Ómar og Aron og þar með eigum við að tapa á móti þessu liði af því að þeir eru með meiri breidd eða eitthvað. En við erum bara með ákveðna stöðu í leiknum þar sem við getum gert miklu betur. Mér finsnt við bara vera sjálfum okkur verstir.“

„Það er svo leiðinlegt að við séum að enda þetta svona ef svo fer sem fer,“ sagði súr Gísli Þorgeir að lokum.

Klippa: Gísli Þorgeir eftir tapið gegn Svíum

Tengdar fréttir

Biður þjóðina afsökunar

„Mér líður illa og ég vill byrja á því að segja sorry við þjóðina,“ segir Elliði Snær Viðarsson, leikmaður íslenska landsliðsins, sem tapaði fyrir Svíum 35-30 í öðrum leik liðsins í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×