Fótbolti

Haller klár í að snúa aftur til keppni eftir krabba­meins­með­ferðina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sebastien Haller er klár í slaginn eftir að hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.
Sebastien Haller er klár í slaginn eftir að hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð. Marco Donato/Borussia Dortmund via Getty Images

Sebastien Haller, framherja þýska úrvalsdeildarfélagsins Borussia Dortmund, gæti snúið aftur til keppni á nýjan leik á morgun eftir að hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.

Haller verður í leikmannahóp Dortmund er liðið mætir Augsburg í þýsku deildinni á morgun, en þjálfari liðsins, Edin Terzic, á enn eftir að ákveða hversu stórt hlutverk leikmaðurinn mun leika.

Haller hefur gengist undir skurðaðgerðir og í gegnum geislameðferð til að vinna bug á krabbameini sem hann greindist með í eista. Hann snéri nýverið aftur til æfinga og kom á dögunum inn af varamannabekknum í æfingaleik hjá Dortmund.

„Hann ber sig mjög vel. Þetta er búinn að vera langur tími sem hann hefur verið í burtu,“ sagði Terzic á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Augsburg.

„Við erum öll mjög stolt af honum og því hvernig hann barðist í gegnum þetta ferli. Við erum ótrúlega ánægðir með að hann sé loks til taks. Við sjáum til hvort hann muni byrja leikinn.“

Haller greindist með krabbamein í eista í júlí á síðasta ári, stuttu eftir að hann gekk í raðir Dortmund frá Ajax. Eins og áður segir snéri Haller aftur á völlinn í afingaleik á dögunum þegar hann kom inn af varamannabekknum á 73. mínútu í 5-1 sigri gegn Fortuna Dusseldorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×