Í dagbók lögreglunnar er vísað til þó nokkurra mála frá því í gærkvöldi sem tengjast ölvun. Í einu tilfelli voru lögregluþjónar kallaðir til vegna ölvaðs manns sem var til vandræða í strætisvagni. Í minnst tveimur öðrum tilfellum neituðu menn að yfirgefa sitthvoran veitingastaðinn og þá var tilkynnt um mann sofandi ölvunarsvefni í Mjóddinni. Sá var látinn gista fangageymslur þar sem ekki var hægt að koma honum heim.
Í enn einu tilfelli var óskað eftir aðstoð vegna ofurölvi manns sem hafði í hótunum við fólk í Grafarvogi. Sá var einnig búinn að skemma eitthvað af hlutum inn í húsinu og var handtekinn.
Lögregluþjónar stöðvuðu þar að auki mann vegna þess að hann var að tala í símann en þegar lögregluþjónar töluðu við hann grunaði þá að hann væri ölvaður og var hann handtekinn. Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um ölvun undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Þá var lögregla kölluð til eftir að brotist hafði verið inn í geymslur í fjölbýlishúsi á Völlunum í Hafnarfirði. Einnig var tilkynnt um eignaspjöll á stigagangi fjölbýlishúss í hverfinu.