Lífið

Edda og Páll rifja upp Heima­eyjar­gosið: Bæjar­stjórinn á Hlíðar­enda og símar fastir í vegg

Árni Sæberg skrifar
Páll Magnússon og Edda Andrésdóttir settust niður með Sighvati Jónssyni og rifjuðu upp Heimaeyjargosið.
Páll Magnússon og Edda Andrésdóttir settust niður með Sighvati Jónssyni og rifjuðu upp Heimaeyjargosið. Bylgjan

Hálf öld er liðin frá Heimaeyjargosinu sem hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Fjallað var um þetta fyrsta eldgos sem hófst í byggð á Íslandi í þættinum 50 ár frá gosi, á Bylgjunni í morgun, sunnudag klukkan 9. Í þættinum spjallaði Sighvatur Jónsson við Eddu Andrésdóttur og Pál Magnússon um gosið.

Fjölmiðlafólkið Edda og Páll eru bæði frá Eyjum og þekkja sögu Heimaeyjargossins vel. Edda var á vettvangi sem blaðamaður fyrir Vísi og Páll stýrði traktorsgröfu við hreinsunarstörf eftir að gosinu lauk sumarið 1973. Meðal viðmælenda Eddu í gosinu var Magnús bæjarstjóri í Eyjum, faðir Páls.

Gosið togar alltaf

Sighvatur Jónsson segir að hugmyndin að þættinum hafi kviknað í samtali hans og Eddu fyrr í vetur. 

„Ég og Jóhanna Ýr Jónsdóttir framleiddum heimildarmynd um Heimaeyjargosið fyrir áratug þegar 40 ár voru liðin frá því. Myndin heitir Útlendingur heima – uppgjör við eldgos og vakti athygli fyrir mannlega nálgun. Við Jóhanna Ýr erum bæði fædd í Eyjum eftir gos og okkur langaði að spyrja fólk hvernig það var að takast á við náttúruhamfarirnar og áföllin sem óneitanlega fylgdu í kjölfarið,“ segir Sighvatur.

Hann segist hafa rætt fyrr í vetur við Eddu um 50 ára gosafmælið.

„Ég sagði að önnur heimildarmynd væri ekki í vinnslu hjá mér. En hins vegar togar gosið alltaf sem umfjöllunarefni, sérstaklega í okkur fjölmiðlafólk frá Eyjum. Ég nefndi þá við Eddu að kannski ættum við að gera útvarpsþátt. Hún og Palli tóku vel í hugmyndina – enda gaf þetta okkur þremur tækifæri til að hittast og ræða um heimahagana yfir kaffibolla,“ segir Sighvatur.

Bæjarstjórinn á Hlíðarenda

„Magnús bæjarstjóri gæti þess vegna verið Gunnar á Hlíðarenda,“ sagði Páll brosandi þegar hann og Edda ræddu í þættinum um hversu mikið börn og unglingar vita um Heimaeyjargosið fyrir hálfri öld. Páll sagði að hann spyrði stundum börn um vitneskju þeirra um gosið.

„Jú, þau vita af því að þetta gerðist en kannski er þetta í sömu fjarlægð frá þeim eins og Tyrkjaránið 1627 er fyrir okkur.“

Edda og Páll eru sammála um mikilvægi þess að varðveita sögurnar um gosið. Margir muna hvar þeir voru þegar þeir heyrðu fyrst af eldsumbrotunum sögulegu. Í Eyjum voru flestir í fastasvefni þegar gossprunga opnaðist á austanverðri Heimaey, rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 1973.

Gosið hófst við Kirkjubæina skammt frá æskustöðvum Eddu.

Gosið hófst við Kirkjubæina.Sigurgeir Jónasson/Heimaslóð.is

„Það voru um 150-200 metrar í húsin fimm sem voru austast á Eyjunni. Ég átti ekki heima í Eyjum en ég ólst þarna upp á sumrin hjá ömmu minni, þannig að mér var málið vissulega skylt,“ rifjaði Edda upp.

Sögulegar upptökur Ríkisútvarpsins

Sighvatur undirbjó upptökuna með Eddu og Palla með því að fletta upp fréttum um gosið í gömlum dagblöðum.

„Þar á meðal voru greinar sem Edda skrifaði fyrir Vísi, oft á vettvangi á Heimaey. Auk þess fékk ég góðfúslegt leyfi hjá RÚV til að nota sögulegar upptökur af umfjöllun Ríkisútvarpsins, meðal annars frá fyrstu klukkustundum gossins.“

Sighvatur segist alltaf fá gæsahúð þegar hann hlustar á lýsingu Árna Gunnarsson, fréttamanns Ríkistúvarpsins, sem lýsti því sem fyrir augu bar í flugferð yfir gosstöðvarnar á Heimaey.

Gosið var tilkomumikið. Sigurgeir Jónasson/Heimaslóð.is

„Við nálgumst nú Vestmannaeyjar og þetta er ægileg sjón ef hægt er að nota eitthvað orð yfir það sem nú blasir við okkur,“ sagði Árni á segulbandsupptöku sem var spiluð í útsendingu Ríkisútvarpsins þegar til Reykjavíkur var komið. „Í dag fengjum við lýsingu sem þessa eflaust í beinni útsendingu – bæði í hljóði og mynd – en tæknilegar aðstæður voru aðrar fyrir 50 árum,“ segir Sighvatur.

Ekkert net og símar fastir í vegg

Edda Andrésdóttir rifjaði upp í þættinum 50 ár frá gosi hversu ólíkar vinnuaðstæður fjölmiðlafólks voru fyrir hálfri öld.

„Við þurftum alltaf að vera á eftir Magnúsi bæjarstjóra, pabba þínum,“ sagði Edda við Pál Magnússon. „Það voru símar fastir í vegg, engar tölvur, engir farsímar. Og myndirnar voru aðalmálið, það var ekki hægt að símsenda þær. Það þurfti að hlaupa upp á flugvöll og koma filmunum á fyrstu ferð. Ef það var engin bílferð þá þurfti bara að hlaupa. Þetta voru svo gjörólík vinnubrögð frá því sem við þekkjum í dag,“ sagði Edda.

Edda hóf feril sinn sem blaðamaður á Vísi árið 1972, árið áður en Heimaeyjargosið hófst.

Föstudaginn 26. janúar 1973 prýddu tvær stórar fyrirsagnir forsíðu Vísis. Annars vegar „Sautján hús brenna. Ráðgert að allir yfirgefi Heimaey upp úr hádeginu í dag nema björgunarmenn.“ Neðar á forsíðunni var fyrirsögnin: „Aðstoðum ekki við að flytja burt björgunartæki, segir Magnús Magnússon, bæjarstjóri í Eyjum. Stefnt að því að bæjarlífið verði sem næst óbreytt, þegar gosinu lýkur.“

Sighvatur bendir á að vert sé að hafa það í huga að þetta er haft eftir bæjarstjóranum, aðeins þremur sólarhringum eftir að eldsumbrotin hófust í Vestmannaeyjum. Páll Magnússon sagði að pabbi sinn hafi stundum hvatt fólk til að koma aftur til Eyja eftir gosið þar sem allt væri orðið grænt. Þar hafi faðir hans ýkt aðeins því ekki sást stingandi strá í svartri öskunni sem lá yfir bænum.

„Talandi um pabba gamla. Hann minntist oft á að það voru ákveðin augnablik þar sem þetta leit verst út eins og til dæmis þegar rafveitan fór undir. Þá kemur náttúrulega upp þessi hugsun sem ég held að þeir hafi nú aldrei látið ná yfirhöndinni, er allt að fara?“ rifjaði Páll upp.

Baráttuandi Eyjamanna og hraunkælingin

Baráttuandi Eyjamanna ríkti ekki bara í orðum bæjarstjórans, heldur líka á borði. Reynt var að hefta framrás hraunsins með því að kæla það. Jarðfræðingurinn Þorbjörn Sigurgeirsson rifjaði upp fyrri aðferðir, en hann beitti sér fyrir því að tilraunir voru gerðar með kælingu hrauns tíu árum fyrr, í Surtseyjargosinu suður af Vestmannaeyjum árið 1963. Þeim tilraunum var sem sagt framhaldið þegar sjó var dælt á hraunið sem kom upp í Vestmannaeyjum 1973.

Í þættinum 50 ár frá gosi var einnig rætt við Páll Zóphóníasson sem var bæjartæknifræðingur í gosinu í Eyjum. Hann sagði ummerki sýna að hraunkælingin fyrir 50 árum hafi virkað. Mjög mikill snjór hefur legið yfir Vestmannaeyjum undanfarnar vikur sem auðveldaði Páli göngu um þennan hluta hraunsins.

„Hraunið er ótrúlega úfið og gróft. Mjög djúpar sprungur. Það er eiginlega ekki hægt að fara yfir það. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef farið yfir þetta hraun og ég efast um að nokkur maður hafi komist yfir það áður. Þannig að þetta hafa verið ótrúlegir kraftar sem hafa verið þarna að verki þegar þetta myndaðist,“ sagði Páll Zóphóníasson.

Fór betur en flestir þorðu að vona

Í þættinum 50 ár frá gosi var rifjað upp viðtal sem tekið var við Magnús Magnússon, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, í lok mars 1974 um uppbygginguna eftir gos.

„Í stórum dráttum er ég ánægður. Vissulega er margt sem hefði mátt fara betur eða ganga hraðar. En ef á heildina er litið þá held ég að það sé nú ekki hægt að segja annað heldur en að málin hafi nú þróast betur heldur en flestir þorðu að vona.“

3. júlí 1973 var lýst yfir goslokum í Eyjum. Á forsíðu Vísis var greint frá því að deginum áður fóru sex menn niður í gíginn og voru þar í hálftíma. Edda Andrésdóttir sagði að tilgangurinn hafi verið að kanna hitastig í gígnum til að sanna að gosinu væri lokið.

„Þeir sátu þarna í góðu yfirlæti og röbbuðu um daginn og veginn. Þeir voru að hugsa um það að gista,“ rifjaði Edda upp en ljósmyndari Vísis var með í för. „Ég man þegar við birtum þessa frétt á forsíðu eftir gleðinni innra með manni sjálfum yfir þessu. Mér finnst þessi mynd svo táknræn og flott, menn horfa upp til himins upp úr þessum gíg. Þetta var stórkostleg stund.“

Páll Magnússon sagðist ekkert hafa talað við pabba sinn fyrstu mánuðina sem gosið stóð. Þeir voru hins vegar sameinaðar um sumarið þegar Páll tók þátt í hreinsunarstörfunum í Eyjum eftir gos. Hann stýrði traktorsgröfu á 12 klukkustunda löngum vöktum.

„Þarna var ég á þessari gröfu allt þetta sumar. Skrítið að segja það eftir á, að mörgu leyti er þetta eitthvert eftirminnilegasta og skemmtilegasta sumar sem ég hef lifað, sumarið 73,“ sagði Páll.

Margt verður gert til að minnast tímamótanna. Meðal annars ætla nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Vestmannaeyja að lesa í sólarhring efni sem tengist gosinu. Lesturinn hefst um það leyti sem gosið hófst árið 1973, rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt 23. janúar.

Hér má hlusta á þáttinn 50 ár frá gosi sem var sendur út á Bylgjunni sunnudaginn 22. janúar klukkan 9. Þátturinn verður endurfluttur mánudaginn 23. janúar að loknum kvöldfréttum á Bylgjunni.

Klippa: 50 ár frá gosi - Edda Andrésdóttir og Páll Magnússon





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.