Handbolti

Skýrsla Stefáns: Átján skelfilegum mínútum frá þessu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði 9 mörk fyrir íslenska liðið í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði 9 mörk fyrir íslenska liðið í kvöld. vísir/vilhelm

Það lá fyrir að Ísland myndi ekki komast í 8-liða úrslitin fyrir leikinn gegn Brasilíu. Lokaleikurinn í milliriðlinum og aðeins undir í hvaða sæti liðið endar á mótinu. Það gæti skipt máli upp á að komast í undankeppni fyrir næstu Ólympíuleika.

Líklega erfitt að gíra sig upp í leikinn og byrjaði Brasilía leikinn betur og voru þeir einfaldlega mun ákveðnir á fyrstu mínútunum. Íslenska liðið að kasta boltanum trekk í trekk frá sér og þetta leit ekki vel út. 4-1 eftir fimm mínútur. Eftir tæplega fimmtán mínútna leik voru tæknifeilarnir, lélegar sendingar og léleg skot í aðalhlutverki hjá íslenska liðinu og það fjórum mörkum undir, 10-6. Og ekki var varnarleikurinn upp á marga fiska, eiginlega bara arfaslakur. 

Í hálfleik var staðan 22-18 og íslenska liðið bara einfaldlega að spila illa og þá sérstaklega varnarlega. Og markvarslan engin, 3 skot eftir þrjátíu mínútur. Ekki boðlegt að fá á sig 22 mörk í einum hálfleik og það gegn Brasilíu. Líklega hefur Guðmundur Þórður tekið eitt stykki hárblásara í hálfleiknum á sína menn. Það þurfti margt að breytast.

Strákarnir voru sannarlega klárir í smá slag í byrjun síðari hálfleiks. Brassarnir skoruðu reyndar fyrsta mark hálfleiksins og komust fimm mörkum yfir 23-28. En þá komu fjögur íslensk mörk í röð og staðan 23-22 þegar Brasilía tekur leikhlé. Mun meiri kraftur í vörnina, Viktor Gísli að verja í markinu og hraðinn í sókninni eins og hann á að vera.

Leikurinn sveiflukenndur næstu mínútur en þegar það voru tíu mínútur eftir af leiknum kom fram einhver neisti og íslenska liðið náði loks að jafna metin 32-32. Síðustu tíu mínúturnar voru í eigu Íslands og endaði með nokkuð þægilegum sigri.

Stuðningsmenn Íslands voru frábærir í kvöld og höfðu ekki gefist upp á leikmönnum liðsins þar sem stuðningurinn var góður frá byrjun. Það var eiginlega stúkan sem gaf íslenska landsliðinu kraft til að klára þennan leik. Skemmtileg innkoma hjá Kristjáni Erni Kristjánssyni í kvöld og gerði hann átta mörk úr tíu skotum. Bjarki Már Elísson var góður í raun eins og alltaf og Gísli Þorgeir Kristjánsson stórkostlegur á miðjunni. Stýrði leiknum vel og gaf alls níu stoðsendingar og skoraði fimm mörk.

Heilt yfir ekki nægilega góður leikur en auðvitað erfitt að gíra sig upp í leik þar sem það var ljóst fyrir hann að sæti í 8-liða úrslitum væri útilokað. En niðurstaðan á mótinu vonbrigði, að komast ekki í 8-liða úrslit sem var án efa markmiðið. Menn rifja líklega ekki oft upp síðustu átján mínútur leiksins gegn Ungverjum. Það kostaði okkur sætið í 8-liða úrslitunum. Ekki hjálpaði að missa Aron Pálmarsson, Ómar Inga Magnússon og Ólaf Guðmundsson í meiðsli. Ekki liggur fyrir í hvaða sæti Ísland lendir í á HM 2023 en það verður líklega aldrei litið til baka á þetta mót í framtíðinni, það mun gleymast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×