Handbolti

Dagur Sig vildi ekki sjá það að Bjarki fengi hrós fyrir mótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson með stuðningsmanni íslenska landsliðsins eftir lokaleikinn á HM.
Bjarki Már Elísson með stuðningsmanni íslenska landsliðsins eftir lokaleikinn á HM. Vísir/Vilhelm

Bjarki Már Elísson hefur fengið hrós fyrir frammistöðu sína á heimsmeistaramótinu. Einn færasti þjálfari landsins er ekki sammála því að hann fái slíkt hrós.

Bjarki varð langmarkahæsti leikmaður íslenska liðsins á mótinu en það er ekki nóg til að fá hrós frá Degi Sigurðssyni.

Dagur Sigurðsson er landsliðsþjálfari Japans en var sérfræðingur RÚV á HM 2023.Getty/Slavko Midzor

Bjarki skoraði 45 mörk í 6 leikjum eða 7,5 mörk í leik og 24 mörkum meira en næstmarkahæsti leikmaður liðsins sem var Sigvaldi Guðjónsson.

Dagur er ekki á því að hornamaður liðsins eigi innistæðu fyrir öllu því hrósi sem hann hefur fengið á þessu móti.

Í upphitunarþætti RÚV fyrir leikinn á móti Brasilíu í gær þá mótmælti Dagur því þegar kollegi hans Logi Geirsson talaði um að Bjarki hafi verið einn af leikmönnum íslenska liðsins sem hafi spilað vel á þessu heimsmeistaramóti.

Kristjana Arnarsdóttir spurði sérfræðingana hverjir hafi átt fínt mót. „Bjarki stóð sig vel,“ sagði Logi Geirsson en Dagur greip strax fram í fyrir honum.

„Ég er ekki sammála því því þú ert allt of mikið að horfa á mörkin,“ sagði Dagur Sigurðsson.

„Hann klikkar náttúrulega svaðalega í Ungverjaleiknum, þessi þrjú skot þarna sem fara alveg með leikinn en heilt yfir þá er hann búinn að standa sýna plikt,“ sagði Logi Geirsson og dró í land.

„Hann er ekki búinn að vera góður í vörn og hversu stór partur er það af heildarleik manna. Hann klikkar á þremur mjög mikilvægum skotum í mikilvægasta leiknum og er ekki búinn að vera góður í vörn,“ sagði Dagur.

„Af hverju á Bjarki að labba frá mótinu að hafa verið eitthvað súper,“ spurði Dagur.

Dagur nefndi frekar Óðinn (Þór Ríkharðsson) og Gísla (Þorgeir Kristjánsson) á köflum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×