Handbolti

Strákarnir okkar settu nýtt íslenskt markamet á heimsmeistaramótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ekkert íslenskt landslið hefur skorað fleiri mörk að meðaltali í leik á HM í handbolta en strákarnir okkar gerðu á þessu heimsmeistaramóti.
Ekkert íslenskt landslið hefur skorað fleiri mörk að meðaltali í leik á HM í handbolta en strákarnir okkar gerðu á þessu heimsmeistaramóti. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur aldrei skoða jafnmörg mörk að meðaltali í leik á heimsmeistaramóti og á nýloknu heimsmeistaramóti í Svíþjóð og Póllandi.

Íslensku strákarnir skoruðu alls 207 mörk í sex leikjum sem gera 34,5 mörk að meðaltali í leik.

Bjarki Már Elísson tryggði íslenska liðinu metið með tveimur mörkum sínum á lokasekúndum leiksins á móti Brasilíu. Við þau tvö mörk á síðustu 25 sekúndum leiksins fór meðalskorið úr 34,17 mörkum í leik í 34,5 mörk í leik.

Íslenska liðið skoraði þrjátíu mörk í öllum leikjum sínum nema þeim afdrifaríka á móti Ungverjalandi þar sem liðið skoraði aðeins þrjú mörk á síðustu átján mínútum.

Þetta er nýtt markamet hjá Íslandi á HM en gamla metið var frá því í HM í Portúgal 2003.

Íslenska liðið skoraði 308 mörk í 9 leikjum á því heimsmeistaramóti en 55 þeirra komu reyndar í fjörutíu marka sigri á Áströlum í fyrsta leik. Íslenska liðið skoraði 34,2 mörk í leik á heimsmeistaramótinu fyrir tuttugu árum.

Á því móti í Portúgal skoraði liðið bara 31,6 mörk í leik í hinum átta leikjunum.

  • Flest mörk í leik hjá Íslandi á heimsmeistaramóti
  • 34,5 á HM í Svíþjóð og Póllandi 2023 (Guðmundur Guðmundsson þjálfari)
  • 34,2 á HM í Portúgal 2003 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 33,7 á HM í Þýskalandi 2007 (Alfreð Gíslason)
  • 30,8 á HM í Túnis 2005 (Viggó Sigurðsson)
  • 30,2 á HM á Spáni 2013 (Aron Kristjánsson)
  • 29,6 á HM í Svíþjóð 2011 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 28,3 á HM í Egyptalandi 2021 (Guðmundur Guðmundsson)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×