Handbolti

Al­freð gagn­rýnir fyrir­komu­lag HM: „Gátum ekki undir­búið okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem mun nú spila um 5.-8. sæti á HM.
Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem mun nú spila um 5.-8. sæti á HM. Getty/Jan Woitas

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, óskaði Frökkum til hamingju með sigurinn í 8-liða úrslitum HM í gær en benti á hve ósanngjörn dagskrá mótsins, sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð, væri. Það bitnaði á Þjóðverjum.

Frakkar reyndust sterkari síðustu tuttugu mínúturnar gegn Þýskalandi í gær og unnu að lokum 35-28, eftir að staðan hafði verið 16-16 í hálfleik.

Þjóðverjar höfðu aðeins fengið einn dag í hvíld frá síðasta leik sínum í milliriðli, sem leikinn var í Katowice, á meðan að Frakkar höfðu fengið tvo daga frá því að milliriðli þeirra í Kraká lauk. Liðin ferðuðust svo innan Póllands til Gdansk þar sem leikurinn í gær var spilaður, og þurfa núna að ferðast til Stokkhólms þar sem mótið verður klárað.

„Það sem angrar mig svolítið er dagskráin. Það er munur á því að fá tvo daga í hvíld fyrir svona leik í staðinn fyrir einn eins og við fengum. Þetta skipti miklu máli,“ sagði Alfreð en Þjóðverjar þurftu að nýta hvíldardaginn sinn í að fljúga frá Katowice til Gdansk eftir erfiðan leik gegn Noregi.

„Þetta var mikið álag. Eiginlega þannig að við gátum ekki undirbúið okkur fyrir leikinn,“ sagði Alfreð og bætti við:

„Það er synd að þegar HM er haldið í fleiri en einu landi skuli eitt lið lenda svona mikið verr í því en annað. Það er auðvitað ekki ákjósanlegt að eitt lið þurfi að ferðast en annað ekki. Það er ekkert hægt að fegra það neitt. Þetta er umtalsverð byrði fyrir liðið sem þarf að ferðast,“ sagði Alfreð áður en hann lagði af stað frá Póllandi til Svíþjóðar þar sem næstu andstæðingar, Egyptar, hafa dvalið allt mótið. Sigurliðið í leik Þýskalands og Egyptalands á morgun leikur um 5. sæti á HM en tapliðið um 7. sæti.

„Þetta verður ekki auðvelt því nú tekur við annar ferðadagur. Við höfum ekki mikinn tíma. En við munum leggja allt í sölurnar í leiknum til að ná sem bestum úrslitum,“ sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×