Handbolti

Ísland ekki eina handboltaþjóðin sem dreymir um að brjóta upp þessa fernu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson í leik með íslenska landsliðinu á HM í Svíþjóð.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson í leik með íslenska landsliðinu á HM í Svíþjóð. Vísir/Vilhelm

Í kvöld fara fram undanúrslitin á heimsmeistaramótinu í handbolta þar sem bjartsýnustu spámenn spáðu að íslenska handboltalandsliðið myndi spila.

Það fór þó ekki svo og tólfta sætið varð okkar. Það fór líka svo að það breyttist ekkert á milli heimsmeistaramóti hvaða lið spila um verðlaun.

Alveg eins og á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi 2021 þá eru það Danmörk, Svíþjóð, Frakkland og Spánn sem standa eftir þegar er komið inn í undanúrslitin.

Það voru liðin 59 ár síðan að þetta gerðist síðast en í fyrsta sinn sem sömu þjóðir mætast í undanúrslitunum á tveimur heimsmeistaramótum í röð.

Spánverjar mæta Danmörku eins og fyrir tveimur árum og Frakkar reyna sig á móti Evrópumeisturum Svía.

Síðast gerðist þetta á HM 1961 og Hm 1964 þegar Rúmenía, Svíþjóð, Tékkóslóvakía og Vestur-Þýskaland komust í undanúrslit á tveimur heimsmeistaramótum í röð.

Ísland er því ekki eina handboltaþjóðin sem dreymir um að brjóta upp þessa fernu á næsta heimsmeistaramóti sem fer fram í Króatíu, Noregi og Danmörku árið 2025.

Fyrri undanúrslitaleikur dagsins er á milli Danmerkur og Spánar og hefst hann klukkan 17.00 en klukkan 20.00 hefst svo leikur Frakklands og Svíþjóðar. Danaleikurinn fer fram í Póllandi en Svíar eru á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×