Erlent

Felldu háttsettan ISIS-liða í hellum í Sómalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra öruggari eftir árásina á miðvikudaginn.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra öruggari eftir árásina á miðvikudaginn. AP/Alex Brandon

Bandarískir sérsveitarhermenn bönuðu í gær háttsettum leiðtoga Íslamska ríkisins í Afríku og tíu vígamönnum í árás í norðurhluta Sómalíu á miðvikudaginn. Bilal al-Sudani er sagður hafa verið einn af fjármálastjórum hryðjuverkasamtakanna en hann var felldur í árás á hella sem hann hélt til í fjöllum Sómalíu.

AP fréttaveitan segir al-Sudani hafa verið lengi á ratsjá Bandaríkjamanna. Hann hafi á árum áður unnið fyrir al-Shabab hryðjuverkasamtökin í Sómalíu og hjálpað erlendum vígamönnum að ferðast til Sómalíu og berjast þar.

Al-Sudani er einnig sagður hafa starfað með öðrum ISIS-liða að því að útvega hryðjuverkasamtökunum fjármuni og vígamenn.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagði að al-Sudani hafa átt mikinn þátt í auknum umsvifum ISIS í Afríku og að hann hafi fjármagnað árásir hryðjuverkasamtakanna um allan heim.

„Þessi árás gerir Bandaríkin og bandamenn okkar öruggari og hún er til marks um vilja okkar til að vernda Bandaríkjamenn gegn hryðjuverkaógninni bæði heima fyrir og á erlendri grundu,“ sagði Lloyd.

Hann sagði enga óbreytta borgara hafa sakað í árásinni. Engan hermann sakaði að öðru leyti en að einn þeirra var bitinn af hundi.

Enn hefur tiltölulega lítið verið sagt um árásina annað en að hún hafi verið skipulögð í nokkra mánuði og að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hafi gefið hernum grænt ljós fyrr í þessari viku. AP hefur eftir embættismanni að áætlunin hafi gengið út á að handsama al-Sudani. Það hafi hins vegar ekki reynst hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×