Handbolti

Danir geta varið heims­meistara­titilinn eftir sigur á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landin var frábær í kvöld.
Landin var frábær í kvöld. EPA-EFE/Liselotte Sabroe

Danmörk lagði Spán í undanúrslitum HM í handbolta. Danir, sem eru ríkjandi heimsmeistarar, geta þannig varið titil sinn þegar þeir mæta Frökkum eða Svíum í úrslitum á sunnudag.

Danmörk getur fullkomnað þrennuna á sunnudag en Danir urðu heimsmeistarar 2019 og 2021. Liðið er því komið í úrslit á þriðja heimsmeistaramótinu í röð. Aðeins ein þjóð hefur gert það áður en Svíþjóð fór í úrslit árin 1997, 1999 og 2001.

Þrátt fyrir spennu á ákveðnum tímapunkti síðari hálfleiks í dag þá var sigur Dana einkar öruggur. Þeir  byrjuðu leikinn mun betur, spiluðu frábæra vörn og sóknarleikurinn mallaði líkt og vanalega. Munurinn í hálfleik var fimm mörk, staðan þá 15-10 Dönum í vil. 

Spánverjar náðu að gera leikinn spennandi um miðbik síðari hálfleiks þegar þeir skoruðu fjögur mörk í röð og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt mark, staðan þá 20-19. Nær komst Spánn ekki en Danmörk skoraði fjögur mörk í röð skömmu síðar og gekk frá leiknum í leiðinni, lokatölur 26-23 og Danmörk mætt í úrslit enn á ný.

Simon Bogetoft Pytlick var markahæstur hjá Dönum með 6 mörk. Í markinu var Niklas Landin með 15 varða bolta eða 43 prósent hlutfallsmarkvörslu. Alex Dujshebaev var markahæstur hjá Spáni með 5 mörk.

Frakkland og Svíþjóð mætast klukkan 20.00 í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×