Handbolti

„Hafa verið góðir að fá nýja menn inn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Simon Bogetoft Pytlick var ein af stjörnum Danmerkur á HM.
Simon Bogetoft Pytlick var ein af stjörnum Danmerkur á HM. EPA-EFE/Andreas Hillergren

Áhugavert verður að sjá hvort Danir geti viðhaldið árangri sínum í handbolta þegar reynsluboltar liðsins hætta. Þetta segir Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður og núverandi aðstoðarþjálfari stórliðs Álaborgar í Danmörku. Danska landsliðið varð heimsmeistari þriðja skiptið í röð með sigri á Frakklandi í gær, sunnudag.

„Þeir eru mjög stoltir af þessu og skiljanlega, þetta er fyrsta skipti sem þjóð verður heimsmeistari þrisvar í röð svo þetta er risastórt,“ sagði Arnór.

„Þeir eru frábærir, sérstaklega sóknarlega. Búnir að vera ótrúlega öflugir og það sem þeir hafa verið góðir í er að fá nýja menn inn. Mathias Gidsel kom allt í einu upp úr engu, sama og á þessu móti kemur Simon Bogetoft Pytlick allt í einu. Þetta er fyrsta stórmótið hans Pytlick og hann er í stjörnuliðinu eftir mótið. Þetta sýnir að þeir eru góðir í því að fá nýja leikmenn inn í liðið.“

Geta Danir viðhaldið þessum árangri til lengri tíma?

„Mikkel Hansen og Niklas Landin eru búnir að vinna ótrúlega marga af þessum titlum fyrir þá. En í þessum síðustu titlum eru alltaf nýir menn að koma inn og þeir eru búnir kannski að umturna hópnum hægt og rólega. Auðvitað kemur tími þar sem Mikkel og Landin verða ekki lengur, hvað gerist þá? Verður gaman að sjá en það virðist ekki vera þannig að þeir eigi eftir að vera mörgum áföllum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×