Umfjöllun: KA - Hörður 32-31 | Dagur og Ólafur drógu KA-vagninn yfir línuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Gústafsson skoraði ellefu mörk í sínum fyrsta leik í vetur.
Ólafur Gústafsson skoraði ellefu mörk í sínum fyrsta leik í vetur. vísir/hulda margrét

Dagur Gautason og Ólafur Gústafsson skoruðu samtals 24 mörk þegar KA sigraði Hörð með minnsta mun, 32-31, í mikilvægum fallslag í Olís-deild karla í dag.

KA er áfram í 10. sæti en nú með ellefu stig, jafn mörg og Grótta, og það sem mikilvægast er sex stigum frá fallsæti. Hörður er enn með sitt eina stig á botni deildarinnar.

Ólafur lék sinn fyrsta leik fyrir KA í vetur og innkoma hans skipti sköpum í dag. Hann skoraði ellefu mörk, gaf fjórar stoðsendingar og varði auk þess fjögur skot í vörninni. Markahæstur KA-manna var hins vegar Dagur sem skoraði þrettán mörk úr jafn mörgum skotum. Aðeins fimm leikmenn KA skoruðu í dag.

Leó Renaud-David var sá eini af leikmönnunum þremur sem Hörður fékk í janúarglugganum sem spilaði með liðinu í dag. Hann sýndi góða takta og skoraði sjö mörk og gaf sex stoðsendingar. Guilherme Andrade átti góða innkomu í vinstra hornið og skoraði fimm mörk.

Nicholas Satchwell varði tíu skot í marki KA (37 prósent) og Bruno Bernat sjö (33 prósent). Rolandas Lebedevs varði níu skot hjá Herði (26 prósent) og Emmanuel Evangelista fimm (45 prósent).

KA-menn byrjuðu leikinn af miklum krafti með Nicholas, Ólaf og Dag alla í miklum ham og þeir virtust ætla að ganga frá leiknum strax í byrjun.

Eftir tvö mörk í röð frá Ólafi tók Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, leikhlé. Þá var staðan 10-4, KA í vil og fjórtán mínútur liðnar. Carlos breytti um vörn og sendi tvo leikmenn mjög framarlega á völlinn. Það sló vopnin úr höndum KA-manna og Harðverjar komust í bragðið.

Ólafur kom KA í 14-10 með sínu sjötta marki á 21. mínútu. En Hörður svaraði með fjórum mörkum í röð og jafnaði í 14-14.

Mikel Aristi skoraði jafnaði aftur í 16-16 og kom Herði svo yfir í fyrsta sinn, 16-17, þegar hann skoraði keimlíkt mark með gegnumbroti. Það voru hálfleikstölur.

Seinni hálfleikurinn fylgdi svipaðri formúlu og sá fyrri. KA byrjaði betur en Hörður kom með kröfugt áhlaup sem nægði næstum því til þess að fá stig.

KA-menn héldu betur á spöðunum í byrjun seinni hálfleiks, voru með frumkvæðið og byggðu upp forskot sem varð mest fimm mörk. Harðverjar voru svakalegir klaufar í byrjun seinni hálfleiks og töpuðu boltanum sex sinnum á fyrstu þrettán mínútum hans. Bæði lið töpuðu boltanum sextán sinnum í leiknum en leikmönnum voru oft mislagðar hendur.

Dagur kom KA í 28-23 þegar þrettán mínútur voru eftir en þá svaraði Hörður fyrir sig af krafti. KA-menn skoruðu ekki í tæpar átta mínútur og Hörður minnkaði muninn í tvö mörk, 28-26, eftir þrjú mörk í röð. 

KA náði áttum og Eftir mörk frá Ólafi og Degi komst liðið í 30-26 en Hörður svaraði með þremur mörkum í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 30-29.

Dagur kom KA í 31-29 úr vítakasti en Jón Ómar Gíslason svaraði. Í næstu sókn KA lyfti Ólafur sér svo upp, hamraði boltann í netið og jók muninn í 32-30. Guilherme minnkaði muninn en KA-menn héldu boltanum í lokasókn og fögnuðu sætum sigri, 32-31.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira