Ragnheiður Hrefna Gunnarsdóttir, íbúi á Digranesheiði, segist hafa verið á leiðinni út í búð eftir hádegið þegar þau urðu vör við að annar helmingur á tvístofna ösp hafði fallið til jarðar. Hann lokaði innkeyrslu nágranna þeirra.
Við komuna heim úr búðinni hafi þau heyrt í slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og þaðan mættu vaskir menn. Þeir skáru niður annan helminginn og mátu auk þess hin helming asparinnar svo illa farinn að réttast væri að taka hann niður líka.

Stormur er víða um land í dag og bálhvasst á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal í Kópavogi. Ragnheiður Hrefna segist varla hafa getað staðið sjálf og þurft að grípa til aðgerða til að grill og borð utandyra yrði ekki vindinum að bráð.
Mildi má þykja að enginn hafi orðið fyrir öspinni þegar hún féll sem fyrr segir á gönguleið milli húsa. Fylgir sögunni að nágranni Ragnheiðar Hrefnu hafði fyrir tilviljun ekið nýjum jeppa sínum inn í bílskúr. Bíll sem alla jafna stendur í innkeyrslunni. Fyrir vikið slapp hann við tréð sem féll í tóma innkeyrsluna.
Veðrið hefur haft áhrif víða um land í dag. Ferðamenn keyrðu út af veginum um Víkurskarð og þá fór rúta með ferðamenn út af Ólafsfjarðarvegi. Engin slys urðu á fólki.