Það var Nacho Fernandez sem skoraði eina mark leiksins þegar hann varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir aðeins rúmlega tíu mínútna leik.
Madrídingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en af þeim tuttugu skotum sem liðið átti í leiknum rataði aðeins eitt þeirra á markið. Það var svo sem ekki slæmt færi sem fór forgörðum þegar Madrídingar áttu sitt eina skot á markið, en þá lét Marco Asensio verja frá sér vítaspyrnu.
Niðurstaðan varð því óvæntur 1-0 sigur Mallorca. Real Madrid er því enn fimm stigum á eftir toppliði Barcelona þegar liðið hefur spilað tuttugu leiki, einum meira en Barcelona. Barcelona tekur á móti Sevilla í kvöld og getur liðið þá náð átta stiga forskoti á toppnum.