Erlent

Að minnsta kosti 640 látnir eftir skjálftann í Tyrklandi og Sýrlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks er sagður fastur undir húsarústum.
Fjöldi fólks er sagður fastur undir húsarústum. AP/IHA

Að minnsta kosti 640 eru látnir eftir að 7,8 stiga skjálfti reið yfir suðurhluta Tyrklands og norðurhluta Sýrlands snemma í morgun. Gert er ráð fyrir að raunverulegur fjöldi látinna sé mun meiri og hundruð manns sögð föst undir rústum bygginga.

Viðbragðsaðilar í Tyrklandi segja að 245 látna hið minnsta og 440 særða í sjö héruðum. Í Sýrlandi eru 237 sagðir hafa látist og 630 særst. Sjálfboðaliðasamtökin Hvítu hjálmarnir segja að minnsta kosti 147 látna á svæðum undir stjórn uppreisnarmanna.

Samkvæmt erlendum miðlum eru byggingar í rúst frá Aleppo og Hama í Sýrlandi og að Diyarbakir í Tyrklandi, í meira en 330 kílómetra fjarlægð. Varaforsetinn Fuat Otkay segir nærri 900 byggingar hafa hrunið í Gaziantep og Kahramanmaras í Tyrklandi.

Þá er sjúkrahús sagt hafa hrunið í borginni Iskanderoun.

Otkay sagði í samtali við blaðamenn að viðbragðsaðilar væru einnig að eiga við vont veður á svæðinu.

Leitað í húsarústum í bænum Azmarin í Idlib í Sýrlandi.AP/Ghaith Alsayed

Fjöldi myndskeiða hefur ratað á samfélagsmiðla í morgun, meðal annars myndskeið sem sýnir barni bjargað úr húsarústum.

Á öðru myndskeiði má sjá byggingu hrynja í Sanliurfa í eftirskjálfta.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum hafa boðið fram aðstoð sína og segjast fylgjast vel með þróun mála. Sama á við um ráðamenn í Svíþjóð, þrátt fyrir stirð samskipti milli Svíþjóðar og Tyrklands vegna umsóknar Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×