„Þetta auðvitað leggst ekki vel í mann, að deilan sé komin á þennan stað. Hún er búin að vera í miklum hnút og nú eru atvinnurekendur að grípa til aðgerða sem munu hafa gríðarlega mikil áhrif á samfélagið,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson. Hann ræddi stöðuna í kjaraviðræðunum í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem ítarlega var farið yfir atburði dagsins.
Hann telur að útspil Samtaka atvinnulífsins sé ekki til þess fallið að auðvelda deiluna og að betra hefði verið að samningsaðilar reyndu að leysa ágreining sinn við samningsborðið.
Samkomulag krefjist ríks samningsvilja
Kristján Þórður segir að hann hafi fulla trú á því að Efling og SA muni á endanum ná saman en að til þess þurfi að vera ríkur samningsvilji beggja vegna borðsins.
„Aðilar notuðu helgina og síðusta daga síðustu viku til að reyna að leita allra leiða til að ná samningum. Það tókst því miður ekki en ég hef fulla trú á að þetta sé mögulegt,“ segir hann.
Heldur þú að þetta sé farið að snúast of mikið um persónur?
Ég held að Samtök atvinnulífsins þurfi að gefa sér meiri tíma og kraft í að setjast niður og finna leiðir með Eflingu, til að leiða þetta til lykta og ná kjarasamningi. Ég held að fókusinn þurfi svolítið að fara þangað í stað þess að búa til enn meiri deilur,“ segir Kristján Þórður að lokum.