Erlent

Drottnari í fangelsi eftir að undir­lægjan drap kærastann

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heidi Victoria Bos, drottnarinn, og fórnarlambið Nick Cameron.
Heidi Victoria Bos, drottnarinn, og fórnarlambið Nick Cameron.

Áströlsk kona hefur verið dæmd í sex ára fangelsi eftir að undirlægja hennar réðst á kærasta hennar og myrti. Hún hafði beðið undirlægjuna um að meiða kærastann alvarlega. Hún hafði kynnst undirlægjunni sex vikum fyrir morðið á vefsíðu fyrir fólk í BDSM-samfélaginu.

Nick Cameron var myrtur á bílastæði fyrir utan íbúð sína í Melbourne í Ástralíu í júlí árið 2021. Hann var laminn með hamri og stunginn mörgum sinnum og lést á staðnum vegna höfuðáverka eftir hamarshöggin. 

Kærasta Cameron, Heide Victoria Bos, sagðist fyrst um sinn ekkert vita um morðið á kærastanum. Þau höfðu verið í stormasömu sambandi í nokkra mánuði þar sem hún var beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi. 

Sex vikum fyrir morðið skráði hún sig inn á blætissíðu þar sem hún kynntist manni. Hún varð að drottnara hans og hann að undirlægju hennar. Hún bað undirlægjuna um að ráðast á Cameron og meiða hann svo mikið að hann myndi yfirgefa Melbourne. 

Stuttu eftir að maðurinn hafði myrt Cameron sendi hún skilaboð á undirlægjuna og sagðist vera hætt við. Hún vissi þó ekki að hann væri nú þegar látinn. 

Bos var handtekin tveimur mánuðum eftir morðið þegar lögreglumenn fundu millifærslu af reikningi hennar inn á reikning mannsins upp á tvö þúsund dollara, 280 þúsund krónur. 

Fyrir dómi játaði hún aðild sína að málinu og var dæmd í sex ára fangelsi. Hún hefur þegar setið inni í átján mánuði og mun þurfa að sitja inni í að minnsta kosti tæp tvö ár í viðbót. 

Ekki er búið að rétta yfir manninum sem grunaður er um að hafa framið verknaðinn en búist er við því að það verði gert á næstu vikum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×