Eric R. Holder yngri var fundinn sekur um morðið á bandaríska rapparanum Nipsey Hussle, sem hét réttu nafni Ermias Asghedom, í júlí á síðasta ári en morðið átti sér stað fyrir utan verslun í eigu rapparans í Los Angeles í mars 2019.
Þrátt fyrir að hafa verið fundinn sekur á síðasta ári var dómur yfir Holden ekki kveðinn upp fyrr en í dag. Dómurinn hljóðaði upp á minnst 60 ár í fangelsi, allt upp í lífstíðarfangelsi.
Auk morðsins á Hussle var Holder sakfelldur fyrir tvær tilraunir til manndráps, en hann skaut tvo vegfarendur í árásinni.
Saksóknarar í málinu héldu því fram að Holder hefði skipulagt árásina fyrirfram en verjendur hans sögðu hann hafa tekið skyndiákvörðun um að skjóta Hussle.
Hussle, sem var 33 ára þegar hann var myrtur, átti fjölda aðdáenda og var tilnefndur til Grammy-verðlauna sama ár og hann lést, í flokki bestu rappplatna. Árið 2020 vann hann síðan til tveggja slíkra verðlauna. Annars vegar besta flutning í rappi fyrir lagið Racks in the Middle og besta flutning í rappi og söng fyrir lagið Higher.