Skoðun

Standast tilraunir á föngum skoðun?

Arndís Vilhjálmsdóttir skrifar

Undirrituð fagnar þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á hugmyndir dómsmálaráðherra um tilraunir hugvíkkandi efna á föngum. Tillögurnar eru merki um skammsýni og vanþekkingu ráðherrans á flóknum vandamálum fanga. 

Fjöldi fanga glímir við heimilisleysi, rofin fjölskyldubönd og langa sögu um vímuefnavanda. Rannsóknir sýna okkur að stór hluti er með taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og margir hafa stutta skólagöngu að baki. Í Bandaríkjunum er oft talað um að fangelsin séu í raun orðnar stærstu geðdeildirnar. 

Þótt staðan sé ekki jafn alvarleg hér á landi vistast þó að hverjum tíma einstaklingar í fangelsi með alvarlega geðsjúkdóma, sem ættu í raun að fá þjónustu í heilbrigðiskerfinu frekar en dvelja í réttarvörslukerfinu. 

Að mati undirritaðrar er óljóst hvernig psilocybin eigi að leysa ofangreindan vanda. Þó finna megi ákveðinn samnefnara í aðstæðum fanga þá er þetta langt frá því að vera einsleitur hópur eins og látið er í ljós. Nærtækast væri að móta heildstæða stefnu í málum fanga með því að tryggja þeim farsæla endurkomu í samfélagið. Svo sem með húsnæði, finna málum þeirra farveg innan heilbrigðiskerfisins svo eitthvað sé nefnt. 

Margar siðferðislegar spurningar vakna einnig þegar talað er um tilraunir á föngum. Getur frelsissviptur einstaklingur veitt upplýst samþykki? Hver er valdamismunurinn á fanganum og þeim sem óskar eftir þátttöku hans í tilraunum sem þessum? Hver og hvernig á að velja inn í rannsóknina? 

Í raun minnir umræðan um tilraunir á föngum einna helst á vafasamar tilraunir sem gerðar voru á jaðarsettum einstaklingum fyrir tíma vísindasiðanefnda og almennrar umræðu um réttindi fólks.

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×