Innherji

Sýn kaupir allt hlutafé móðurfélags Já

Hörður Ægisson skrifar
Við undirritun kaupsamningsins. Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, Kjartan Örn Ólafsson, einn eigenda og stjórnarmaður Já, og Einar Pálmi Sigmundsson, stjórnarformaður Já og sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu.
Við undirritun kaupsamningsins. Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, Kjartan Örn Ólafsson, einn eigenda og stjórnarmaður Já, og Einar Pálmi Sigmundsson, stjórnarformaður Já og sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu.

Sýn hefur gengið frá samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Eignarhaldsfélagsins Njálu, móðurfélags upplýsingatæknifyrirtækisins Já, sem rekur meðal annars vefsíðuna og appið ja.is ásamt því að veita upplýsingar í símanúmerinu 1818. Seljendur eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir.

Samkvæmt kaupsamningi mun Já hins vegar jafnframt selja rekstur Gallup á Íslandi, sem starfar á sviði rannsókna og ráðgjafar í gegnum dótturfélagið GI Rannsóknir, til þriðja aðila fyrir afhendingu hins selda til Sýnar. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, segir að með kaupunum hefjist vegferð þar sem fjölmiðla- og fjarskiptafélagið vilji byggja ofan á þá styrkleika sem Já er þekkt fyrir.

Miklir möguleikar eru í auknu þjónustuframboði byggt á öflugum kerfum Já og sterkum mannauð sem við erum mjög spennt að fá til liðs við okkur.

„Já er rótgróið vörumerki og ja.is er einn af tíu mest heimsóttu vefjum Íslands. Þangað leita einstaklingar til að finna upplýsingar um fólk, fyrirtæki og vörur. Miklir möguleikar eru í auknu þjónustuframboði byggt á öflugum kerfum félagsins og sterkum mannauð sem við erum mjög spennt að fá til liðs við okkur.“

Þá segir Vilborg Helga Harðardóttir, sem hefur verið forstjóri Já frá árinu 2019, að félagið sé spennt fyrir því að ganga til liðs við Sýn og sjái þar mikil tækifæri fyrir Já, sem part af þeirri flóru sem er þar fyrir.

„Á sama tíma fylgir því tregi að segja skilið við góða félaga hjá Gallup og óskum við þeim alls hins besta á sinni vegferð,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

Ráðgjafar Já við söluna voru verðbréfafyrirtækið Arctica Finance og LMG Lögmenn en ráðgjafi Sýn við kaupin var Landslög.

Vilborg Helga Harðardóttir, sem hefur verið forstjóri Já frá árinu 2019.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Já fyrir árið 2021 námu tekjur fyrirtækisins samtals tæplega 1.200 milljónum króna og rekstrarhagnaður var um 106 milljónir. Eigið fé Já í lok síðasta árs var rúmlega 530 milljónir. Tekjur dótturfélagsins GI Rannsóknir á sama ári voru um 720 milljónir og rekstrarhagnaðurinn 27 milljónir.  

Í árslok 2021 voru samtals 58 stöðugildi hjá Já.

Fagfjárfestasjóðurinn Auður I, sem er í rekstri Kviku eignastýringar og að meirihluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, fer með ríflega 80 prósenta eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Njálu sem heldur utan um allt hlutafé Já. Aðrir hluthafar Njálu eru félagið SOKO, sem er í eigu Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, forstjóra Lyfju og áður forstjóri Já til ársins 2019, með 14,3 prósenta hlut og félagið Volta, en það er í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar.

Eignarhlutur Auðar I í Já, sem var keyptur árið 2010, er eina eftirstandandi eign fagfjárfestasjóðsins og var bókfærður á tæplega 400 milljónir í lok ársins 2021.

Fyrirtækin Já og Gallup sameinuðust undir merkjum Já hf. fyrir um átta árum síðan. Í ársbyrjun 2021 var félagið sett í formlegt söluferli sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance var þá fengið til að hafa umsjón með og kanna áhuga mögulegra fjárfesta. Það ferli skilaði sér ekki í sölu á fyrirtækinu á þeim tíma.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.


Tengdar fréttir

EasyPark kaupir Leggja

EasyPark hefur keypt bílastæðaþjónustuna Leggja en skrifað var undir kaupsamning í hádeginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×