Genevieve Lhermitte myrti son sinn og fjórar dætur í bænum Nivelles suður af belgísku höfuðborginni Brussel þann 28. febrúar 2007. Faðir barnanna var staddur í heimalandi sínu, Marokkó, þegar konan myrti börnin sem þá voru á aldrinum þriggja til fjórtán ára.
BBC segir frá því að Lhermitte hafi reynt að svipta sig lífi eftir að hafa banað börnunum, en hringdi svo í neyðarlínuna og var hún handtekin á staðnum.
Hin 56 ára Lhermitte var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2008 og var flutt á réttargeðdeild fyrir fjórum árum.

Lög í Belgíu gera ráð fyrir að fólk megi deyja líknardauða, meti læknar viðkomandi þannig að sá sé haldin „óbærilegum“ sálfræðilegum sársauka sem ekki sé hægt að jafna sig á. Manneskjan verður að vera meðvituð um ákvörðun sína að óska eftir líknardrápi og þurfa óskirnar að vera vel rökstuddar og ítrekaðar.
Morðin á börnunum skóku Belgíu þegar upp komst um málið snemma árs 2007. Genevieve Lhermitte lést 28. febrúar síðastliðinn þegar nákvæmlega sextán ár voru liðin frá morðunum.

Á meðan á réttarhöldunum stóð sögðu verjendur Lhermitte að hún væri andlega veik og ætti því ekki að verða dæmd til fangelsisvistar. Kviðdómur fann hana hins vegar seka af ákæru og var hún í kjölfarið dæmd í lífstíðarfangelsi.
Um þrjú þúsund manns fengu dánaraðstoð í Belgíu á síðasta ári, tíu prósent fleiri en árið 2021. Í flestum tilfellum er óskað eftir dánaraðstoð í kjölfar krabbameinsgreiningar.