Íslenski boltinn

Skoraði í dag en á reynslu hjá FCK í gær

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daníel Ingi hefur verið þrívegis til FCK á reynslu.
Daníel Ingi hefur verið þrívegis til FCK á reynslu. ÍA

Daníel Ingi Jóhannesson skoraði síðara mark ÍA í 2-0 sigri liðsins á Grindavík í dag. Daníel Ingi var staddur í Kaupmannahöfn í gær þar sem hann var á reynslu hjá FC Kaupmannahöfn. Eldri bróðir hans, Ísak Bergmann, spilar með Danmerkurmeisturunum.

ÍA tók á móti Grindavík í Akraneshöllinni er liðin mættust í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Staðan var lengi vel markalaus en undir lok leiks skoraði ÍA tvö mörk og vann leikinn 2-0. Daníel Ingi skoraði síðara markið, hans fyrsta í meistaraflokki.

Segja má að undirbúningur hins 15 ára gamla Daníels Inga, sem er sonur Jóhannes Karls Guðjónssonar – aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hafi verið heldur óhefðbundinn. Í gær æfði Daníel Ingi með U-17 ára liði FC Kaupmannahafnar en fór svo heim á leið um kvöldið og var mættur í leik dagsins.

Daníel Ingi hóf leikinn á bekknum en kom inn á 57. mínútu líkt og Ármann Ingi Finnbogason en hann skoraði fyrra mark leiksins. Búist er við að ÍA og Grindavík verði í toppbaráttu Lengjudeildarinnar í sumar en ÍA féll úr Bestu deildinni síðasta sumar.

ÍA er í 3. sæti riðils 1 í Lengjubikarnum með sex stig að loknum 4 leikjum. Grindavík er í 5. sæti án stiga að loknum 3 leikjum.


Tengdar fréttir

Yngri bróðir Ísaks á reynslu hjá FCK

Danska stórliðið FC Kaupmannahafnar er með fjóra unga íslenska leikmenn innan sinna raða og er ekki hætt að horfa til Íslands.

Yngstu leik­menn í sögu ÍA og KR koma úr gríðar­legum fót­bolta­fjöl­skyldum

Fornu fjendurnir KR og ÍA hafa bæði valdið vonbrigðum það sem af er sumri í Bestu deild karla í fótbolta. KR-ingar eru þó að því virðist að vakna af værum blundi á meðan ÍA er fast við botninn. Bæði lið hafa þó gefið mjög svo ungum leikmönnum nokkrar mínútur í sumar, mínútur sem skiluðu drengjunum í sögubækurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×