Fótbolti

Spilaði sinn fyrsta leik í fimm mánuði og skoraði þrennu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Graham Hansen í leik dagsins.
Caroline Graham Hansen í leik dagsins. Twitter@FCBfemeni

Carlone Graham Hansen, leikmaður norska landsliðsins í knattspyrnu og Spánarmeistara Barcelona, sneri aftur í lið Barcelona eftir fimm mánaða fjarveru vegna hjartavandamála. Hún skoraði þrennu í 5-0 sigri Börsunga á Villareal.

Það virðist fátt ætla að stöðva Barcelona í að verja titil sinn á Spáni og annað tímabilið í röð gæti liðið klárað tímabilið með fullt hús stiga. Sem stendur er Barcelona með 60 stig að loknum 20 leikjum. Liðið hefur skorað 89 mörk og aðeins fengið á sig fjögur.

Spánarmeistararnir tóku á móti Villareal í dag og voru 2-0 yfir í hálfleik þökk sé mörkum Asisat Oshoala og Salma Celeste Paralluelo Ayingono Staðan var 2-0 allt fram á 70. mínútu en aðeins fimm mínútum áður hafði Graham Hansen komið inn af bekknum í sínum fyrsta leik í langan tíma.

Sú nýtti mínúturnar heldur betur vel en Hansen hafði skorað þrennu áður en leiktíminn rann út. Lokatölur 5-0 og í fljótu bragði erfitt að sjá hvaða lið ætti að stöðva meistarana. 

Þá má reikna með að Alexia Putellas, besta knattspyrnukona heims, snúi aftur áður en tímabilin lýkur en hún sleit krossband í hné í aðdraganda Evrópumótsins síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×