Erlent

Enn efnt til mót­mæla vegna hækkunar eftir­launa­aldursins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælt í Nantes í dag.
Mótmælt í Nantes í dag. AP/Jeremias Gonzales

Yfirvöld í Frakklandi undirbúa sig nú undir fjöldamótmæli og umfangsmiklar samgönguraskanir en starfsmenn í lestar- og flugsamgöngum hefja verkföll í dag. Boðað var til aðgerðanna vegna fyrirætlana stjórnvalda um að hækka eftirlaunaldurinn úr 62 í 64 ár.

Um er að ræða sjöttu fjöldamótmæli ársins og skipuleggjendur stefna að því að endurtaka leikinn frá 19. janúar síðastliðnum, þegar meira en milljón manns mótmæltu hækkun eftirlaunaldursins.

Gert er ráð fyrir að verkföllin munu hafa áhrif á allar lestarsamgöngur í landinu, þar á meðal millilandasamgöngumáta á borð við Eurostar. Verkföllin munu einnig hafa áhrif á strætó og neðanjarðarlestar.

Hvað flugið varðar hefur 30 prósent flugferða dagsins verið aflýst vegna verkfalls flugumferðarstjóra. Þá hafa bifreiðastjórar flutningabifreiða aka sérstaklega hægt í dag og jafnvel loka vegum inn í stórborgir. Þetta er talið munu hafa áhrif á vöruflutninga til matvörumarkaða og fleiri fyrirtækja.

Skipuleggjendur verkfallanna og mótmælendanna segja markmiðið að „stöðva Frakkland“.

Samgönguráðherrann Clément Beaunce sagði í samtali við France 3 að um yrði að ræða einn erfiðasta verkfallsdaginn frá upphafi mótmælanna.

Nemendur eru sagðir hyggjast taka þátt og þá ætla starfsmenn í sorphirðu að leggja niður störf.

Umræða um hækkun eftirlaunaaldursins stendur enn yfir en niðurstöðu er vænst fyrir lok marsmánaðar. Stjórnvöld hafa sagst ekki munu falla frá fyrirætlunum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×