Fótbolti

Næsti HM-draumur stelpnanna okkar gæti ræst í Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindísi Jane Jónsdóttir í leiknum örlagaríka á móti Portúgal.
Sveindísi Jane Jónsdóttir í leiknum örlagaríka á móti Portúgal. Vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta var hársbreidd frá því að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót í sögunni þegar liðið tapaði í framlengingu í umspilsleik á móti Portúgal í lok síðasta árs.

Heimsmeistaramótið fer fram án Íslands í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar og næsta mögulega heimsmeistaramót fyrir íslensku stelpurnar verður árið 2027.

Það er heilmikil keppni um að fá að halda þá heimsmeistarakeppni.

Brasilía vill fá að halda HM 2027 og íþróttamálaráðuneyti landsins staðfesti í gær að þeir hafi sótt um að fá að halda keppnina.

Bæði borgarstjórar Rio de Janeiro og Sao Paulo hafa meðal annars lýst yfir áhuga á því að borgir þeirra fái að hýsa úrslitaleik keppninnar.

Tvö önnur tilboð um að halda keppnina eru í gangi. Belgía, Holland og Þýskaland vilja halda keppnina saman og þá kemur Suður-Afríka einnig til greina.

Knattspyrnuspyrnuyfirvöld í Bandaríkjunum hafa einnig talað um að reyna að fá keppnina 2027 eða 2031.

Brasilía hélt HM karla 1950 og 2014 en hefur aldrei haldið kvennakeppnina.

Alþjóða knattspyrnusambandið mun ákveða það á næsta ári hvar heimsmeistarakeppnina fari fram sumarið 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×