Fótbolti

Banna áfengi í nágrannaslagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham og félagar Borussia Dortmund mæta nágrönnunum í Schalke um næstu helgi.
Jude Bellingham og félagar Borussia Dortmund mæta nágrönnunum í Schalke um næstu helgi. Getty/Alex Gottschalk

Bjórinn fær vanalega að flæða á fótboltaleikjum í Þýskalandi og því vekur athygli áfengisbann á nágrannaslag Schalke og Borussia Dortmund um komandi helgi.

Það gekk mikið á þegar Schalke heimsótti Dortmund í fyrri leik liðanna í september síðastliðnum.

Af öryggisástæðum hafa þýsk yfirvöld því bannað áfengissölu á leiknum. Þau óttast slagsmál og óeirðir vegna drukkna stuðningsmanna liðanna.

Það má ekki selja bjór eða annað vín inn á vellinum eða utan hans.

Forráðamenn Schalke eru ekki sáttir og telja þetta ekki réttu leiðina til að tryggja öryggi áhorfenda á leiknum.

Þjóðverjar hafa mikla hefð fyrir því að sötra bjór á fótboltaleikjum og gera það án vandræða.

Stuðningsmenn Schalke og Dortmund virðast hafa tryggt sér þurran leik eftir framkomu sína síðasta haust.

Dortmund er með jafnmörg stig og Bayern München á toppi þýsku deildarinnar en Schalke er aftur á móti að berjast um að falla ekki úr deildinni.

Áfengislausi leikurinn fer fram seinnipartinn á laugardaginn á Veltins Arena í Gelsenkirchen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×