Handbolti

Þorsteinn Gauti spilaði í sigri Finna og Eistar unnu í riðli Íslands

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorsteinn Gauti leikur með finnska landsliðinu í handknattleik.
Þorsteinn Gauti leikur með finnska landsliðinu í handknattleik. Vísir/Hulda Margrét

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði tvö mörk í sigri Finnlands í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik á næsta ári. Þá unnu Eistar sigur á Ísrael í riðli Íslands.

Þorsteinn Gauti var nokkuð óvænt valinn í finnska landsliðið í handbolta í vetur. Í ljós kom að hann er gjaldgengur hjá Finnum þar sem amma hans var finnsk. Leikurinn gegn Slóvakíu í dag var fyrsti keppnisleikur Þorsteins Gauta með Finnum.

Þjóðirnar voru báðar án sigurs fyrir leikinn í dag en auk þeirra eru Serbía og Noregur með þeim í riðli. Leikurinn í dag var jafn og spennandi og skiptust liðin á forystunni í fyrri hálfleiknum. Staðan í hálfleik 13-12 fyrir Slóavkíu.

Leikurinn var áfram jafn fyrstu mínútur seinni hálfleiks en þá náðu heimamenn í Finnlandi frumkvæðinu og komust í 22-19 um miðjan hálfleikinn. Slóvakía náði aldrei að jafna metin eftir það og Finnar fögnuðu 30-27 sigri og eru þar með komnir með tvö stig í riðlinum.

Þorsteinn Gauti lét að sér kveða í sínum fyrsta landsleik fyrir Finna. Hann skoraði tvö mörk úr fjórum skotum en Max Granlund var markahæstur með átta mörk.

Norðmenn köstuðu frá sér forystu

Í hinum leik riðilsins mættust Serbía og Noregur í Serbíu. Norðmenn byrjuðu betur og náðu fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik en að honum loknum leiddu þeir 14-12.

Í síðari hálfleik komu heimamenn hins vegar til baka. Þeir komust í 20-19 um miðjan hálfleikinn en það var í fyrsta sinn sem Serbar voru yfir síðan í stöðunni 2-1. Dejan Milosavljev var Norðmönnum erfiður í marki Serba og varði meðal annars þrjú vítaskot.

Norðmönnum tókst þó að jafna og lokamínúturnar voru æsispennandi. Serbía komst í 23-22 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir en gestirnir jöfnuðu í tvígang eftir það. Heimamenn áttu hins vegar lokaorðið, Uros Borzas skoraði sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok og Serbar eru því í efsta sæti riðilsins eftir þrjá leiki.

Í riðli Íslands mættust Eistland og Ísrael í Eistlandi. Þar höfðu heimamenn betur og náðu þar með í sín fyrstu stig í riðlinum. Hvorugt liðið á raunhæfa möguleika á að komast áfram þar sem Ísland og Tékkland hafa unnið fremur auðvelda sigra gegn þjóðunum hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×