Fótbolti

Sævar Atli og Kolbeinn allt í öllu í sigri Lyngby

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sævar Atli Magnússon fagnar hér öðru marka sinna í dag.
Sævar Atli Magnússon fagnar hér öðru marka sinna í dag. Vísir/Getty

Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson voru mennirnir á bakvið 3-1 sigur Lyngby á Midyjylland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Lyngby er í neðsta sæti dönsku deildarinnar en gat með sigri jafnað Álaborg að stigum í töflunni. Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Finnsson og Alfreð Finnbogason voru allir í byrjunarliði Lyngby í dag og tveir þeir fyrstnefndu áttu heldur betur eftir að koma við sögu. Freyr Alexandersson er knattspyrnustjóri Lyngby.

Sævar Atli opnaði markareikninginn þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu og staðan í hálfleik var 1-0. Midtjylland jafnaði metin í 1-1 á 57. mínútu en ellefu mínútum fyrir leikslok skoraði Sævar Atli sitt annað mark eftir sendingu frá Kolbeini og kom Lyngby í forystu á nýjan leik.

Þremur mínútum síðar fékk Junior Brumado, leikmaður Midtjylland, rautt spjald og Frederik Gytkjær innsiglaði sigur Lyngby fjórum mínútum fyrir leikslok eftir sendingu Kolbeins, hans önnur stoðsending í leiknum.

Sigurinn er kærkominn fyrir Lyngby sem nú er jafnt Álaborg að stigum en liðin eru með 15 stig í tveimur neðstu sætum deildarinnar. Horsens er í þriðja neðsta sætinu sjö stigum ofar.

Markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson sat allan tímann á varamannabekk Midtjylland.

Þá voru Orri Óskarsson og Atli Barkarson báðir í byrjunarliði Sönderjyske sem vann 3-2 sigur á Vendsyssel í næst efstu deild í Danmörku. Orri nældi sér í gult spjald í leiknum en báðir léku þeir félagar allan leikinn með Sönderjyske sem er í þriðja sæti deildarinnar eftir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×