Sport

Maðurinn sem breytti há­stökki til fram­búðar er látinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dick Fosbury var maðurinn sem breytti hástökki til frambúðar. Hann lést í gær, 76 ára að aldri.
Dick Fosbury var maðurinn sem breytti hástökki til frambúðar. Hann lést í gær, 76 ára að aldri. Johnny Nunez/Getty Images

Dick Fosbury, maðurinn sem breytti því hvernig fólk kom sér yfir slána í hástökki til frambúðar, er látinn.

Fosbury var 76 ára gamall, en hann hafði barist við eitilkrabbamein. Í tilkynningu sem Ray Schulte, vinur Fosbury, birti á Instagram-síðu hástökkvarans fyrrverandi kemur fram að Fosbury hafi dáið í svefni eftir stutta baráttu við meinið.

Fosbury er líklega þekktastur fyrir að hafa breytt stökktækninni í hástökki til frambúðar þegar hann kynnti til sögunnar það sem síðar var kallað „The Fosbury Flop“ á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. Hann var þá fyrstur til að stökkva afturábak yfir stöngina, en það er tæknin sem langflestir hástökkvarar heimsins nota í dag.

Dick Fosbury notar „The Fosbury Flop“ tæknina á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968.Vísir/Getty

Fosbury setti nýtt Ólympíumet á leikunum árið 1968 þegar hann stökk yfir 2,24 metra. Þrátt fyrir miklar efasemdir annarra hástökkvara tók tæknin þó fljótt á flug og af þeim 36 hástökkvurum sem unnu til verðlauna í greininni á Ólympíuleikum frá 1972 til ársins 2000 notuðu 34 keppendur tæknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×