Erlent

5.600 tonn af rusli hlað­borð fyrir rottur Parísar­borgar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rusl safnast upp á götum Parísarborgar.
Rusl safnast upp á götum Parísarborgar. AP/Thomas Padilla

Borgaryfirvöld í París segja 5.600 tonn af rusli hafa safnast upp í borginni eftir að sorphirðustarfsmenn lögðu niður störf til að mótmæla fyrirætlunum stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn úr 62 árum í 64 ár. 

„Þetta er sóðalegt og laðar að sér rottur og kakkalakka,“ sagði einn Parísarbúi um ástandið í samtali við franska útvarpsstöð.

Verkfallsaðgerðirnar ná til um helmings hverfa borgarinnar og annarra borga á borð við Nantes, Rennes og Le Havre. Í París hafa sorphirðustarfsmenn einnig lokað fyrir aðgengi að þremur sorphirðustöðum og þeirri fjórðu hefur verið lokað að hluta.

Einn viðmælandi útvarpsstöðvarinnar Europe1 sagði París hlaðborð fyrir sex milljón rottur borgarinnar.

Aðgerðasinnar eru sagðir hafa freistað þess að hindra störf þeirra einkafyrirtækja sem sjá um sorphirðu í sumum hverfum Parísar. Þá ku hafa sést til starfsmanna einkafyrirtækja í hverfum þar sem opinberir starfsmenn eru venjulega að störfum.

Einn embættismanna borgarinnar, Emmanuel Grégoire, segir ástandið flókið en verið sé að forgangsraða í þágu öryggis, til að mynda með því að hreinsa til í kringum matvörumarkaði og hirða upp ruslapoka sem hefur verið hent úti á götu.

Sérfræðingurinn Romain Lasseur sagði í samtali við Le Parisien að rotturnar væru raunverulegt áhyggjuefni, þar sem þær hreiðruðu um sig í ruslahrúgunum, ættu þar afkvæmi og skildu eftir sig hland og skít sem gæti ógnað heilsu sorphirðustarfsmanna og almennings.

Fulltrúar sorphirðustarfsmanna munu funda í dag um framhald aðgerðanna.

Stjórnvöld hyggjast ekki gefa eftir hvað varðar lækkun eftirlaunaaldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×