Íslenski boltinn

„Ef ég ræð ekki við Rikka G í padel þá get ég ekkert spilað fótbolta“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Albert Brynjar Ingason er hættur fótbolta 37 ára.
Albert Brynjar Ingason er hættur fótbolta 37 ára. vísir/sigurjón

Markahæsti leikmaður í sögu Fylkis hefur lagt skóna á hilluna. Bakslag hans, Padel viðureign gegn Rikka G, var dropinn sem fyllti mælinn.

Albert Brynjar Ingason skoraði 69 mörk í efstu deild sem skilar honum í tuttugasta sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu deildarinnar. Þessi 37 ára framherji meiddist illa á hné sumarið 2021 og náði ekki að spila með Fylki síðasta sumar. Hann var leikmaður Kórdrengja þegar hann meiddist.

„Þetta hefur verið litríkur ferill, skemmtilegur og upp og niður,“ segir Albert og heldur áfram.

„Fallið með Fylki var ákveðinn lágpunktur, að falla niður um deild með uppeldisklúbb er gríðarlega sárt. Svo tímabilið eftir það að komast upp með Fylki og vinna einhvern titil með þeim var yndislegt. Svo er það Íslandsmeistaratitillinn með FH sem var gríðarlega skemmtilegt. En að komast upp úr deild er alltaf skemmtilegt og ég hef gert það með þremur klúbbum.“

Albert birti stöðufærslu á Facebook í dag þar sem hann talar um ákveðið bakslag í meiðslum hans sem gerir það að verkum að skórnir eru komnir á hilluna.

 „Ætli það hafi ekki verið okkar maður hérna á Stöð 2 sem lokaði ferlinum mínum, hann Rikki G sem tók mig í padel í tvo klukkutíma og jarðtengdi mig þar. Ég fór alveg í hnénu eftir það. Ef ég ræð ekki við Rikka G í padel þá get ég ekkert spilað fótbolta.“

„Ég fór í fjórar aðgerðir eftir að ég meiddist illa sumarið 2021 þar sem ég brotnaði ytra megin á hnénu, sleit ytra liðband og krossband og fékk sýkingu í þetta líka. Þetta er búið að vera upp og niður ferli. Eftir að Fylkir komst upp þá komst ég í rauninni að þeirri niðurstöðu að ég væri eiginlega bara til í að fórna hnénu fyrir Fylki, ekkert annað lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×