Á vef Veðurstofunnar segir að það verði dálítil él fyrir austan, en annars víða bjart veður eða léttskýjað.
„Seint á morgun, föstudag lítur út fyrir að úrkomubakki leggist yfir vestanvert landið og getur snjóað staðbundið allmikið. Líkur eru á að þessi snjókomubakki verði viðloðandi vestanvert landið fram eftir laugardegi, en færist síðan yfir á austur hluta landsins.
Þannig að það lítur út fyrir að vetur konungur minni einnig á sig um vestanvert landið eftir langan þurrviðriskafla.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Austlæg átt, 3-10 m/s, skýjað að mestu og sums staðar dálítil él, en 10-15 syðst um kvöldið og fer að snjóa suðvestantil. Frost víða 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.
Á laugardag: Breytileg átt 3-10. Snjókoma um landið vestanvert, en annars yfirleitt úrkomulaust. Styttir upp vestantil um kvöldið en fer að snjóa á austurhelmingi landsins. Frost víða 1 til 8 stig, en frostlaust við suðurströndina til kvölds.
Á sunnudag: Norðlæg átt víða 5-13. Dálítil él um landið austanvert, en léttskýjað á Suðvesturlandi. Frost 2 til 13 stig, kaldast inn til landsins.
Á mánudag og þriðjudag: Hæg breytileg átt, yfirleitt léttskýjað og kalt.
Á miðvikudag: Útlit fyrir austanátt með björtu veðri, en líku á éljum suðaustan- og austantil. Áfram talsvert frost.