„Tómas Valur Þrastarson stal svolítið athyglinni okkar í græna herberginu þegar við horfðum á leikinn því að sá spilaði góða vörn,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, stjórnandi þáttarins um Tómas í gærkvöldi.
Hermann Hauksson, sérfræðingur þáttarins, tók þá við og hélt stutta lofræðu um Tómas.
„Hávaxinn, fljótur og hann er líka að sýna okkur það að hann er óhræddur að taka stór skot. Hann gerði það í leiknum, tók stór þriggja stiga skot, sérstaklega í seinni hálfleik. Og svo getur hann bara tekið alla þessa stráka, minni og stærri, og dekkað þá. Hann er frábær að dekka snögga bakverði, hann er gríðarlega fljótur á löppunum og með góðar hendur. Ég er bara ofboðslega hrifinn af þessum leikmanni og genin í þessum bræðrum körfuboltalega séð eru rosalega stór og sterk,“ sagði Hermann, en Tómas er eins og margir vita bróðir Styrmis Snæs Þrastarsonar.
Teitur Ölygsson greip þá boltann á lofti og hrósaði leikmanninum einnig.
„Það kom mér á óvart bara strax í haust hvað hann er orðinn líkamlega sterkur og „athletic“ og það er bara mín skoðun að hann er einn af bestu „on-ball“ varnarmönnum í deildinni, eins og staðan er í dag. Hann er kornungur sem er alveg magnað og bara ágætis skotmaður og þetta er bara strákur sem á þvílíka framtíð fyrir sér.“
Spennan í kringum framtíðarlandsliðsmenn mikil
Umræðan fór þá út í möguleika íslenska karlalandsliðsins á næstu árum, enda hafa mikið af efnilegum leikmönnum verið að stíga fram á sviðið síðustu misseri.
„Þetta eru líka frekar ólíkir leikmenn sem eru að koma upp heldur en hafa verið að koma upp í landsliðinu. Þetta eru allt frekar hávaxnir strákar og miklir íþróttamenn,“ sagði Hermann.
„Stemningin og spennan í kringum þessa stráka sem eru að koma inn í landsliðið næstu kannski þrjú til fjögur árin er mikil og eftirvæntingin eftir því. Eðlilega.“