Bayern náði forystunni í leiknum með marki frá Joshua Kimmich en tvö mörk frá Exequiel Palacios úr vítaspyrnum tryggðu Leverkusen sigurinn. Eftir úrslit helgarinnar er Bayern í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir toppliði Borussia Dortmund.
Nagelsmann var afar ósáttur eftir leikinn gegn Leverkusen í gær og lét leikmenn Bayern heyra það.
„Fyrir utan síðustu tíu mínúturnar vorum við verra liðið. Það var engin orka á vellinum og við spiluðum ekki vel. Við áttum skilið að tapa,“ sagði Nagelsmann. Hann sakaði svo Bæjara um að leggja sig ekki nógu mikið fram.
„Þetta hafði batnað á síðustu vikum, þessi blanda tilfinninga og góðrar spilamennsku. Í dag vorum við latir. Í vörn og sókn sýndu sumir leikmenn núll prósent vinnusemi. Við vorum linir í því hvernig við spiluðum.“
Bayern mætir Dortmund á heimavelli 1. apríl, í fyrsta leik sínum eftir landsleikjahléið.