Innlent

Eyja­menn taka á móti þrjá­tíu flótta­mönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. stjr

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, hafa undirritað samning um samræmda móttöku flóttafólks í Vestmannaeyjum. Samningurinn kveður á um að Vestmannaeyjabær taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að þrjátíu flóttamönnum.

Sagt er frá þessu á vef stjórnarráðsins. Um er að ræða níunda samninginn sem undirritaður er um samræmda móttöku flóttafólks frá því í nóvember síðastliðinn. Reykjavík reið á vaðið og síðan Árborg, Akureyri, Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Múlaþing og Mosfellsbær.

Fram kemur að Vestmannaeyjabær hafi einnig undirritað samning sem feli í sér að sveitarfélagið muni þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd, það er fólk sem bíði eftir svari við verndarumsókn sinni. Vinnumálastofnun sér um þjónustu við þann hóp fólks hér á landi og sá samningur var því undirritaður af Írisi Róbertsdóttur fyrir Vestmannaeyjabæ og Gísla Davíð Karlssyni, sviðsstjóra hjá Vinnumálastofnun.

„Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi,“ segir á vef ráðuneytisins. 

Haft er eftir Írisi að þau hjá Vestmannaeyjabæ séu ánægð með samkomulagið þar sem það rammi inn með skýrum hætti þá þjónustu sem til standi að veita flóttafólki. „Það er mikil samstaða um það hér í Eyjum að sýna samfélagslega ábyrgð og við viljum gera vel varðandi móttöku og í öllu utan um haldi fyrir fólk sem er á flótta,“ segir Íris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×