Innlent

Telja að olíu­mengun megi rekja til skips­flaks við Vest­manna­eyjar

Kjartan Kjartansson skrifar
Olíublautir fuglar fundust meðal annars í Vestmannaeyjum á milli 2020 og 2022.
Olíublautir fuglar fundust meðal annars í Vestmannaeyjum á milli 2020 og 2022. Vísir/Vilhelm

Olíumengun sem merki hafa fundist um við suðurströndina undanfarin ár má líklega rekja til skipsflaks á hafsbotni við Vestmannaeyjar. Tölvulíkön um hafstrauma og gervihnattagögn voru notuð til að reyna að rekja upptök mengunarinnar.

Talsverður fjöldi olíublautra fugla fannst víðs vegar við strendur Suðurlands og í Vestmannaeyjum á milli áranna 2020 og 2022, meðal annars í Reynisfjöru, í Vík og víðar.

Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun létu greina rek olíu við suðurströndina og voru meðal annars notuð til þess tölvulíkön Veðurstofunnar og Copernicus-gagnaþjónusta Evrópusambandsins.

Ekki reyndist mögulegt að rekja uppruna mengunarinnar nákvæmlega en óþekkt skipsflak á hafsbotni er talin líklegasta skýringin. Efnagreining leiddi í ljós að um svartolíu var að ræða en hún er meðal annars notuð sem eldsneyti í skipum. Það bendi til þess að flakið sé af skipi sem sökk eftir síðari heimsstyrjöldina þar sem svartolía var ekki notuð í eldri skipum.

Mestar líkur eru taldar á að flakið sé að finna á hafsvæði innan við tólf sjómílur austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar. Lekinn sé líklega stöðugur og frekar lítill. Tvö flök sem eru fjórar til sex sjómílur suðaustan af Vestmannaeyjum eru talin líklegust.

Í skýrslu sérfræðings sem stofnanirnar fengu til verksins kemur fram að til þess að greina megi uppruna mengunarinnar með vissu þurfi að koma auga á olíuflekk á yfirborði sjávar og rannsaka skipsflök á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×