Erlent

Banda­ríkja­menn opin­bera gögn um rann­sóknir á upp­runa Co­vid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lagasetningin kann að reita Kínverja til reiði.
Lagasetningin kann að reita Kínverja til reiði. EPA/Yuri Gripas

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur undirritað lög sem kveða á um að allar upplýsingar sem stjórnvöld vestanhafs búa yfir um uppruna kórónuveirunnar SARS-CoV-2 verði gerðar opinberar.

Forsetinn segir nauðsynlegt að komast að því hvaðan veiran kom og skoða möguleg tengsl faraldursins við Wuhan Institute of Virology, þar sem umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á kórónuveirum í leðurblökum.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að rannsóknir á uppruna Covid-19, sjúkdómsins sem SARS-CoV-2 veldur, séu enn yfirstandandi en gera eigi eins mikið af upplýsingum opinberar og mögulegt er án þess að stofna þjóðaröryggi í hættu.

Stjórnvöld í Kína hafa harðneitað því að rekja megi uppruna kórónuveirufaraldursins til rannsóknarstofunnar í Wuhan, þar sem faraldurinn hófst. Bandaríska þingið vill hins vegar rannsaka þann möguleika frekar.

Hinar ýmsu stofnanir Bandaríkjanna hafa rannsakað málið en ekki komist að sömu niðurstöðu.

Sjö milljónir manna eru taldar hafa látið lífið af völdum Covid-19, þar á meðal milljón Bandaríkjamanna.  


Tengdar fréttir

Uppruni Covid: Spjótin beinast að marðarhundum en mikilvæg gögn hurfu

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) gagnrýndi kínverska embættismenn í gær fyrir að hylma yfir rannsóknir sem gætu varpað ljósi á uppruna Covid-19. Forsvarsmenn WHO spurðu af hverju gögn sem birtust á netinu í janúar og hurfu aftur þegar vísindamenn fóru að spyrjast fyrir um þau, voru ekki birt strax fyrir þremur árum og af hverju þau voru fjarlægð aftur.

Allir sammála um að veiran sé náttúruleg

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar forsvarsmenn Orkustofnunar Bandaríkjanna breyttu skýrslu stofnunarinnar um uppruna Covid-19. Í breyttri skýrslu Orkustofnunarinnar kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar telji líklegt að kórónuveiran sem veldur Covid-19 hafi lekið af rannsóknarstofu í Wuhan í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×