Dagur bendir á í Facebookfærslu að borgin hafi aldrei opnað jafn marga leikskóla og í fyrra. Hann furðar sig á því að nýr leikskóli, Brákarborg, sem opnaði formlega síðasta föstudag, hafi lent í neikvæði umræðu eins og hann orðar það. Byggingin hafi verið umhverfisvottuð og fengið hönnunarverðlaunin Grænu skófluna.
Síðasta haust fjallaði fréttastofa um að þrátt fyrir umrædd hönnunarverðlaun hafi leikskólinn verið tekinn í notkun nokkru áður en hann var tilbúinn. Starfsemi hófst en viðvarandi framkvæmdir komu í veg fyrir aðlögun nýrra nemenda og ollu óánægju og áhyggjum á meðal kennara.
Frétt Stöðvar 2 um málið:
Upphaflega átti leikskólinn að vera tilbúinn fyrir síðasta haust. Frumkostnaðaráætlun leikskólans nam 623 milljónum en í annarri áætlun borgarinnar, sem kynnt var í júlí 2021 var gert ráð fyrir að uppbyggingin kosti 989 milljónir.
Sama um hönnunarverðlaun
Langþreyttir foreldrar og börn þeirra mættu á ný á borgarstjórnarfund í dag þegar leikskólamál voru til umræðu. Dæmi eru um að börn þurfi að bíða í á þriðja ár eftir leikskólaplássi.
Fyrrgreindri facebookfærslu Dags var jafnframt mótmælt í athugasemum hennar af foreldrum. Þeim sé sama um hönnunarverðlaun á meðan staðan í leikskólamálum sé svo slæm:
„Flottur leikskóli. Verst er að þurfa að vera launalaus í 1-2 ár áður en barnið okkar fær pláss. Vona að þið hafið rætt það á þessum fundi…“ skrifar Birta Björnsdóttir undir færslu Dags.
Bjarni Benediktsson verkefnastjóri segir óþolandi að hlusta á viðtöl þar sem Dagur segist aldrei hafa gert meira og um framkvæmd sem hafi fengið hönnunarverðlaun.
„Ég held ég tali fyrir flesta foreldra þegar ég segi að öllum sé sama um hönnunarverðlaun og vottanir þegar fólk er að umturna lífi sínu af því þú gast ekki unnið vinnuna þína undanfarin ár og staðið við loforð.“
Thelma Björk Wilson er ein þeirra sem skipulagði mótmælin í ráðhúsinu í dag.
„Ég vona að þau [borgarstjórn] svitni örlítið við að hér séum við að pressa svona á þau. Mér finnst ótrúlegt að aðeins minnihlutinn hefur haft samband við mig og aðra foreldra. Enginn úr meirihlutanum hefur haft samband,“ sagði hún í samtali við fréttastofu í dag.
Barnamálaráðherra hefur boðað endurskoðun leikskólalaga og sagt að til greina komi að lengja fæðingarorlof vegna ástandsins.