Innlent

Hótaði að kveikja í sér vegna óánægju með afgreiðslu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Útlendingastofnun í Kópavogi.
Frá Útlendingastofnun í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Erlendur karlmaður hótaði að bera eld að sjálfum sér í húsnæði Útlendingastofnunar í hádeginu. Aðgerðum lögreglu á vettvangi var lokið um hálftíma eftir að tilkynning barst.

Fram kemur í tilkynningu lögreglu að betur hafi farið en á horfðist. Í tilkynningu til lögreglu klukkan 12:23 hafi komið fram að maður hótaði að bera eld að sjálfum sér í afgreiðslu Útlendingastofnunar á Dalvegi í Kópavogi.

Viðkomandi hafi verið rólegur en hafði hellt yfir sig eldfimum vökva og hélt á kveikjara. Ástæðan fyrir hótun mannsins mun vera óánægja hans með afgreiðslu máls, en umsókn hans um alþjóðlega vernd er til meðferðar hjá yfirvöldum. Maðurinn var færður af staðnum og fékk viðeigandi aðstoð að sögn lögreglu.

Lögreglan var með talsverðan viðbúnað vegna málsins og einnig var slökkvilið í viðbragðsstöðu. Tilkynningin um hótunina barst kl. 12.23 og var aðgerðum lokið fyrir klukkan eitt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umsækjendur um alþjóðlega vernd grípa til þess að hóta því að kveikja í sér vegna óánægju með stöðu mála þeirra í kerfinu.


Tengdar fréttir

Hælisleitendur fluttir beint af geðdeild og úr landi: „Það er rangt, ómannúðlegt og að mínum dómi ólöglegt“

Dæmi eru um að andlega veikir hælisleitendur, sem hafa fengið neitun um dvalarleyfi, séu sóttir á geðdeild og fluttir úr landi. Til stóð að ríkislögreglustjóri myndi sækja tuttugu og þriggja ára hælisleitanda frá Afganistan úr nauðungarvistun á geðdeild í nótt. Lögmaður mannsins segir rangt, ómannúðlegt og ólöglegt að stjórnvöld framkvæmi brottvísun á nauðungarvistuðu fólki sem sé hættulegt sjálfu sér.

Hælisleitandi reyndi að kveikja í sér

Hælisleitandi reyndi að kveikja í sér á fundi kærunefndar útlendingamála í gær. Lögregla var kölluð til og maðurinn handtekinn strax í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×