Erlent

Gerðu loftárásir eftir mannskæða drónaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandaríkjamenn hafa lengi notað MQ-9 Reaper dróna til árása í Mið-Austurlöndum og víðar.
Bandaríkjamenn hafa lengi notað MQ-9 Reaper dróna til árása í Mið-Austurlöndum og víðar. EPA/Rio Rosado

Bandarískur verktaki féll í drónaárás í Sýrlandi í nótt þar sem skæruliðahópur studdur af stjórnvöldum í Íran notaðist við dróna frá ríkinu til árásarinnar á herstöð í norðausturhluta landsins. Annar verktaki og fimm bandarískir hermenn særðust í árásinni.

Fjórir þeirra sem særðust voru fluttir til aðhlynningar í Írak. Hlúð var að tveimur á staðnum.

Í kjölfarið gerðu Bandaríkjamenn loftárásir á skæruliðahópinn og aðra sem studdir eru af Byltingarverði Írans. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í nótt að loftárásir Bandaríkjamanna hefðu verið hnitmiðaðar og þeim væri ætlað að koma í veg fyrir frekari árásir, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Árásirnar voru gerðar að skipa Joes Biden, forseta Bandaríkjanna.

Syrian Observatory for Human Rights, samtök sem vakta átökin í Sýrlandi, hafa eftir heimildarmönnum sínum að minnst átta skæruliðar hafi fallið í árásum Bandaríkjanna. Búist sé við að fleiri muni láta lífið þar sem margir séu særðir.

Samtökin segja að árásirnar hafi meðal annars beinst gegn vopnageymslu í Deir Ezzor.

Herforinginn Michael Kurilla, einn af æðstu yfirmönnum Bandaríkjahers, segir að herinn sé í stöðu til að gera frekari og umfangsmeiri árásir, verði þörf á því.

Hann sagði þingmönnum í gær að Íran hefði mun meiri hernaðargetu en áður og vísaði sérstaklega til stýri- og eldflauga og sjálfsprengidróna. Kurilla sagði einnig að Íranar hefðu gert 78 árásir á bandaríska hermenn í Sýrlandi frá janúar 2021. Bæði sjálfir og í gegnum skæruliðahópa.

Bandaríkin eru með hundruð hermanna í Sýrlandi og eiga þeir að vera þar til að berjast gegn vígamönnum Íslamska ríkisins, sem enn eru virkir í Sýrlandi og í Írak. Bandarísku hermennirnir styðja sýrlenska Kúrda og bandamenn þeirra í Syrian Democratic Forces, sem leiddu baráttuna í að brjóta kalífadæmi ISIS á bak aftur.


Tengdar fréttir

ISIS-brúður tapar á­frýjun gegn sviptingu ríkis­borgara­réttar

Shamima Begum, ung kona sem fæddist í Bretlandi en gekk sem unglingur til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi, tapaði áfrýjun gegn ákvörðun breskra stjórnvalda að svipta hana ríkisborgararétti í gær. Lögmaður hennar segir að baráttunni sé hvergi nærri lokið.

Tala látinna komin í 45 þúsund

Tala látinna eftir jarðskjálftann í Tyrklandi og Sýrlandi er komin í 45 þúsund og óttast er að hún hækki. 264 þúsund íbúðarhús hrundu í Tyrklandi en síðast í gær var þremur bjargað úr rústum þar í landi. Stríðsátök eru hafin á ný í Sýrlandi, sem hamlar björgunarstarfi.

Enn einn leiðtogi ISIS er fallinn

Talsmenn Íslamska ríkisins tilkynntu í dag að Abu al-Hasan al-Qurashi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna, væri fallinn. Samtökin fengu um leið nýjan leiðtoga en þeir hafa fallið hver á fætur öðrum frá því sá fyrsti og frægasti, Abu Bakr al-Baghdadi dó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×