Erlent

Netanjahú „ekki í tengslum við raunveruleikann“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá mótmælum í Tel Aviv í dag.
Frá mótmælum í Tel Aviv í dag. getty

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, rak varnarmálaráðherrann Yoav Galant í dag eftir að hinn síðarnefndi kallaði eftir því að hætt verði við umdeildar breytingar á dómskerfi landsins. Staða hans er talin í hættu eftir vendingarnar.

Frumvarpinu, sem myndi veita ríkisstjórninni aukin völd yfir dómskerfinu, hefur verið mótmælt kröftuglega síðustu vikur. Taugir þúsunda mótmæltu á götum úti um helgina eftir að tilkynnt var um uppsögn Galant varnarmálaráðherra. Netanjahú er sakaður um einræðistilburði.

Galant var sá fyrsti innan ríkisstjórnar til að lýsa yfir andstöðu við frumvarpið. Í stuttu ávarpi sem sjónvarpað var á laugardag sagði Gallant að meðlimir Ísraelshers væru reiðir og vonsviknir. Hann hafði áður lýst því yfir að skynsamlegast væri að setja frumvarpið, sem takmarkar völd dómskerfisins, á ís. Frumvarpið sé ógn við þjóðaröryggi.

Fréttaskýrendur ytra telja Netanjahú ekki í tengslum við raunveruleikann. Hann hafi undanfarið fengið slæma ráðgjöf frá syni sínum Yair og ekki áttað sig á þeirri andstöðu sem hann standi nú frammi fyrir.

Búist er við að Avi Dichter, fyrrverandi yfirmaður Shin Bet öryggisstofnunarinnar, taki við af Gallant. Dichter er sagður hafa íhugað að ganga til liðs við varnarmálaráðherrann en tilkynnti þess í stað í dag að styðji forsætisráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×