Íslenski boltinn

Albert um Fram: „Þurfa að spila agaðri fótbolta í ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson kom til Fram um mitt síðasta tímabil. Hann verður núna með liðinu frá byrjun.
Brynjar Gauti Guðjónsson kom til Fram um mitt síðasta tímabil. Hann verður núna með liðinu frá byrjun. vísir/hulda margrét

Albert Ingason er ekkert alltof bjartsýnn á að Fram geri betur en á síðasta tímabili. Liðinu er spáð 9. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Já, þeir geta það en það þarf mikið að ganga upp. Þeir nýttu sín færi vel í fyrra og spiluðu skemmtilegan fótbolta. Þeir þurfa að spilara agaðri fótbolta í ár ef ekki á illa að fara. Guðmundur Magnússon átti auðvitað stjörnutímabil í fyrra og það þarf svolítið mikið að ganga upp ef þeir ætla að bæta árangurinn frá því í fyrra,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

Þrátt fyrir að Albert hafi ekki mikla trú á að Fram taki skref fram á við frá því í fyrra er hann ekki á því að leikmannahópur liðsins sé veikari en á síðasta tímabili.

„Nei, ég get ekki sagt það. Það er mikill missir af Almari [Ormarssyni] og að missa svona stóran karakter út. En Brynjar Gauti [Guðjónsson] nær núna heilu undirbúningstímabili. Það var mikið talað um varnarleikinn þeirra í fyrra og hann er leiðtogi,“ sagði Albert.

„Þeir fengu Aron [Jóhannsson] frá Grindavík sem fyllir kannski upp í þetta skarð sem Almarr skilur eftir sig. Ég myndi ekki segja að þeir séu með veikara lið en í fyrra. Það voru margir sem stigu stór skref í fyrra, í að vera efstu deildar leikmenn, og þeir þurfa að fylgja því eftir og sýna að þetta klassíska annars tímabils heilkenni hjá liði sem kemur upp eigi ekki við um Fram-liðið.“

Fyrsti leikur Fram í Bestu deildinni er gegn FH mánudaginn 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×