Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Sumardaginn fyrsta, 20. apríl, verður húsið opið almenningi.
Yfir 3.000 tillögur bárust í nafnasamkeppni sem menningar- og viðskiptaráðuneytið, Árnastofnun og HÍ efndu til.
„Húsnæðið mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn,“ segir í tilkynningunni.
„Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.“
Almenningi mun gefast kostur á því 20. apríl að skoða umrædd rými áður en flutt verður inn og húsnæðið tekið í notkun.