Erlent

Leikkona á sjö­tugs­aldri gagn­rýnd fyrir að nota stað­göngu­móður

Kjartan Kjartansson skrifar
Ana Obregón á viðburði í Madrid í febrúar.
Ana Obregón á viðburði í Madrid í febrúar. Vísir/Getty

Spænska leikkonan Ana Obregón sætir nú gagnrýni í heimalandi sínu eftir að hún upplýsti að hún hefði eignast barn með milligöngu staðgöngumóður. Obregón, sem er fyrst og fremst þekkt fyrir að leika í sjónvarpsþáttum, er 68 ára gömul.

Athygli vakti þegar Obregón birtist á mynd á forsíðu slúðurritsins Hola með hvítvoðung fyrir utan sjúkrahús í Míamí í Bandaríkjunum fyrr í þessari viku.

„Ljós fullt af ást kom inn í myrkrið mitt. Ég verð aldrei ein aftur. ÉG LIFI AFTUR,“ skrifaði Obregón í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram í kjölfarið.

Einkasonur leikkonunnar lést af völdum krabbameins aðeins 27 ára gamall árið 2020. Obregón hefur ekki farið leynt með að hún hafi átt erfitt með að halda áfram með lífið eftir dauða hans. Báðir foreldrar hennar létust eftir það, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Staðgöngumæðrun er bönnuð á Spáni en fólk sem fer úr landi til þess að kaupa slíka þjónustu getur ættleitt barn við heimkomuna. Lög um staðgöngumæðrun voru hert fyrr á þessu ári. Hún er nú skilgreind sem ofbeldi gegn konum sem sé sambærileg við nauðungarmeðgöngu, nauðungarþungunarrof eða nauðungarófrjósemisaðgerð.

Miklar umræður hafa skapast um málið á samfélagsmiðlum á Spáni og ráðherrar í ríkisstjórn hafa ekki látið sitt eftir liggja. Irene Montero, jafnréttisráðherra í ríkisstjórn sósíalista, sagði gjörðir leikkonunnar tegund af ofbeldi gegn konum. Pilar Alegría, menntamálaráðherra, sagði myndina af Obregón á forsíðu tímaritsins minna á Gleðileikinn guðdómlega eftir ítalska skáldið Dante.

„Þetta er ekki staðgöngumæðrun, þetta er leiga á legi sem er ólögleg á Spáni eins og við vitum,“ sagði ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×